ENGINN áþreifanlegur árangur varð af fundi Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, og Ehuds Baraks, forsætisráðherra Ísraels, í fyrradag enda var fyrst og fremst litið á hann sem undirbúning undir væntanlegar viðræður í Bandaríkjunum.

ENGINN áþreifanlegur árangur varð af fundi Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, og Ehuds Baraks, forsætisráðherra Ísraels, í fyrradag enda var fyrst og fremst litið á hann sem undirbúning undir væntanlegar viðræður í Bandaríkjunum. Palestínumenn segjast þó reiðubúnir að bíða í "mánuði" eftir nýjum friðarsamningi fallist Ísraelar á frekari brottflutning frá Vesturbakkanum.

Mjög vel fór á með þeim Arafat og Barak á fyrsta fundi þeirra í tvo mánuði en hann fór fram á heimili Baraks í Tel Aviv. Ræddu þeir í raun ekki helstu deilumálin, sem eru brottflutningur Ísraela frá Vesturbakkanum, framtíð palestínskra flóttamanna, staða Jerúsalems og yfirráð yfir helgum stöðum í borginni, einkum Musterisfjallinu. Ísraelskir fjölmiðlar segja, að Barak sé að skoða bandaríska tillögu um, að Musterisfjallið verði undir stjórn Sameinuðu þjóðanna en Palestínumenn hafa lagt til, að nokkur íslömsk ríki taki að sér gæslu þar. Bandaríkjastjórn er nú að undirbúa friðartillögur, sem byggjast á því, sem fram kom á fundi Ísraela og Palestínumanna í Camp David í sumar og síðar, og verða þær ræddar með samninganefndum hvorra tveggja nú í vikunni. Verða þær hugsanlega lagðar formlega fram í næstu viku en þó því aðeins, að líklegt sé, að þær verði samþykktar.

Háttsettur palestínskur embættismaður, sem óskaði nafnleyndar, sagði í viðtali við AFP-fréttastofuna, að Palestínumenn væru tilbúnir að bíða "mánuðum saman" eftir nýjum friðarsamningi ef Ísraelar héldu strax áfram brottflutningi sínum af Vesturbakkanum. Ísraelar hafa aftur á móti hreyft þeirri hugmynd, að gerður yrði friðarsamningur, en sum helstu deilumálin, t.d. staða Jerúsalems og yfirráðin yfir helgum stöðum í borginni, geymd til betri tíma. Palestínumenn vísa því á bug og segja, að annaðhvort verði undirritaður endanlegur samningur eða enginn.

Jerúsalem. AP, AFP.