Darren Huckerby fagnar með Ian Harte og félögum sínum úr Leeds eftir að hafa skorað eitt marka liðsins gegn tyrkneska liðinu Besiktas í 6:0 sigri þeirra.
Darren Huckerby fagnar með Ian Harte og félögum sínum úr Leeds eftir að hafa skorað eitt marka liðsins gegn tyrkneska liðinu Besiktas í 6:0 sigri þeirra.
ÁTTA leikir fóru fram í riðlakeppni meistaradeildar Evrópu í gær. AC Milan sótti sigur til Barcelona en Manchester United fór fýluferð til Eindhoven þar sem liðið hvíldi fjóra leikmenn úr byrjunarliði og mátti þola 3:1 tap. Rosenborg vann stórsigur á Helsingborg og sömu sögu er að segja af Leeds sem setti á svið markasýningu gegn tyrkneska liðinu Besiktas.

Barcelona var meira með boltann í 2:0 ósigri og leit út fyrir að vera sigurstranglegri aðilinn mestallan leikinn gegn AC Milan sem lá mjög aftarlega á vellinum og lék þéttan varnarleik. Llorenc Serra Ferrer þjálfari Barcelona tók þá ákvörðun að láta taka Andriy Shevchenko og Oliver Bierhoff úr umferð og það stöðvaði Ítalina í fyrri hálfleik. Heimamenn náðu ekki að brjóta niður þéttan varnarmúr gestanna og rétt fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Francesco Coco fyrsta mark leiksins. Rivaldo misnotaði svo frábært tækifæri til að jafna leikinn með kæruleysislegum tilþrifum. Luis Enrique sem var að leika sinn fyrsta leik í nær sjö mánuði vegna meiðsla var nálægt því að skora jöfnunarmark en Dida varði frábærlega. Stuttu síðar bætti Bierhoff öðru marki við fyrir Milan og þar við sat. "Að leika gegn vörn okkar er mjög erfitt. Allt sem við gerðum hér í kvöld var jákvætt. Leikmenn mínir voru stórkostlegir og ég hef fulla trú á þeim," sagði Alberto Zaccheroni þjálfari Milan.

PSV Eindhoven nýtti sér að Manchester United hvíldi fjóra lykilmenn í gær og vann verðskuldaðan 3:1 sigur á heimavelli. Ryan Giggs, David Beckham, Ronny Johnsen og Andy Cole hvíldu allir og byrjaði Dwight Yorke inni á en náði ekki að setja mark sitt á leikinn. "Við náðum engu út úr síðasta leik í Brussel í síðustu viku þannig að sigur í dag var gífurlega mikilvægur," sagði Eric Garets hæstánægður þjálfari PSV. "Ég er ánægður með að við náðum að komast yfir eftir að lenda undir," sagði Garets, sem lék með þrjá framherja. Alex Ferguson skipti David Beckham og Ryan Giggs loks inná á 70. mínútu en það var of seint því úrslitin voru ráðin.

Paris SG stal sigri

Varamaðurinn Laurent Leroy skoraði á lokamínútunum til að tryggja Paris SG 1:0 sigur á Bayern München á heimavelli. "Við ætluðum okkur stóra hluti í kvöld því við vissum að við þyrftum á sigri að halda," sagði Philippe Bergeroo þjálfari Paris. "Strákarnir stóðu sig frábærlega. Við gáfumst aldrei upp og börðumst til síðustu mínútu. Þetta er styrkur liðsins sem er enn mjög ungt og á margt eftir ólært," bætti Bergeroo við. "Mig langaði mjög mikið að koma inná. Þetta var fyrsta markið mitt í meistaradeildinni og ég er mjög ánægður því faðir minn var að horfa á," sagði Leroy ánægður eftir leikinn.

Panathinaikos vann nauman 1:0 útisigur á Hamburger SV. Þjóðverjarnir hafa aðeins hlotið eitt stig úr sínum þremur leikjum og eru því fastir á botni deildarinnar. Rodolfo Cardoso neyddist til að fara meiddur af velli eftir aðeins tvær mínútur. "Það setti strik í reikninginn að missa Cardoso útaf," sagði Frank Pagelsdorf, þjálfari Hamburger. "Síðan skoruðu þeir og þetta var alltaf erfitt eftir það," bætti hann við.

Zinedine Zidane var rekinn útaf í 0:0 jafntefli Juventus gegn Deportivo la Coruna en hann var rekinn útaf á 68. mínútu. Deportivo nýtti sér ekki mannamuninn og varð jafntefli staðreynd í leik sem olli miklum vonbrigðum. "Deportivo sýndi að þeir eru afbragðslið. Rauða spjaldið sem Zidane fékk var ósanngjarnt og við þjáðumst sökum þess," sagði Carlo Ancelotti þjálfari Juventus eftir leikinn.

Leeds sýndi að þeir kunna að skora mörk er þeir unnu 6:0 sigur á Besiktas aðeins tveimur leikjum eftir að tapa 4:0 gegn Barcelona. Eftir aðeins 22 mínútna leik var Leeds komið í 3:0 og áttu Tyrkirnir aldrei möguleika eftir það.

Árni Gautur Arason lék ekki með Rosenborg sökum meiðsla, sem vann stórsigur á grönnum sínum, Helsingborg, 6:1. Frode Johnsen skoraði þrennu og er markahæstur í meistaradeildinni með fjögur mörk. "Ég skora svona mikið vegna þess að ég leik í svo góðu liði," sagði Johnsen hógvær. "Þeir hætta aldrei að koma mér á óvart," sagði Nils Arne Eggen þjálfari Rosenborgar stoltur í leikslok.

Dynamo Kiev vann stórsigur á Anderlecht, 4:0, og skoraði Georgi Demetradze tvö mörk Úkraínumannanna. Dynamo réð leiknum en þeir urðu að bíða þar til á 52. mínútu að skora fyrsta markið. Dynamo lyfti sér upp í annað sætið í riðlinum með fjögur stig, aðeins tveimur á eftir PSV.