BRYNJAR Björn Gunnarsson og Stefán Þór Þórðarson skoruðu dýrmæt mörk fyrir Stoke í gærkvöld þegar lið þeirra kom mjög á óvart með því að slá úrvalsdeildarlið Charlton út úr enska deildabikarnum.

BRYNJAR Björn Gunnarsson og Stefán Þór Þórðarson skoruðu dýrmæt mörk fyrir Stoke í gærkvöld þegar lið þeirra kom mjög á óvart með því að slá úrvalsdeildarlið Charlton út úr enska deildabikarnum. Charlton vann, 4:3, en Stoke fór áfram á fleiri mörkum á útivelli eftir að hafa unnið fyrri leikinn 2:1.

Útlitið var ekki gott hjá Stoke sem lenti 3:1 undir og missti Nicky Mohan af velli með rautt spjald 9 mínútum fyrir leikslok. En Brynjar Björn tryggði 10 leikmönnum Stoke framlengingu með marki þremur mínútum fyrir leikslok. Stefán kom inná sem varamaður um miðja framlenginguna og jafnaði, 3:3, aðeins þremur mínútum síðar. Charlton svaraði, 4:3, en mörk Stoke á útivelli réðu þegar upp var staðið. Í deildabikarnum eru þau ekki talin fyrr en að lokinni framlengingu. Bjarni Guðjónsson lék allan leikinn með Stoke eins og Brynjar Björn.

Brentford tapaði, 2:0, fyrir Tottenham eftir 0:0 í fyrri leik liðanna. Öyvind Leonhardsen og Steffan Iversen skoruðu fyrir Tottenham. Ólafur Gottskálksson lék vel í marki Brentford og Ívar Ingimarsson lék einnig allan leikinn.

Ipswich vann Millwall, 5:0, eftir framlengingu en Millwall vann fyrri leikinn 2:0. Ipswich skoraði ekki fyrr en 17 mínútur voru eftir og þá var búið að reka tvo leikmenn Millwall af velli. Hermann Hreiðarsson fór af velli hjá Ipswich á 68. mínútu.

Heiðar Helguson og Jóhann B. Guðmundsson léku báðir með Watford, sem tapaði óvænt heima, 0:2, fyrir Notts County en komst áfram á fleiri mörkum á útivelli. Báðum var skipt af velli í seinni hálfleik.