ÓLAFUR Gottskálksson, markvörður Brentford , fékk mikið hrós fyrir leik sinn gegn Tottenham í gærkvöld en úrvalsdeildarliðið mátti hafa mikið fyrir 2:0 sigri.
ÓLAFUR Gottskálksson, markvörður Brentford , fékk mikið hrós fyrir leik sinn gegn Tottenham í gærkvöld en úrvalsdeildarliðið mátti hafa mikið fyrir 2:0 sigri. " Ólafur var frábær, við erum heppnir ef við höldum honum lengi í okkar herbúðum," sagði Ron Noades, knattspyrnustjóri Brentford , við fréttavef Sky Sports.

ARNAR Grétarsson lagði upp mark Lokeren þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Westerlo á útivelli í belgísku knattspyrnunni á sunnudaginn. Westerlo jafnaði undir lokin og Lokeren missti þar með af því að komast í 4. sæti deildarinnar og er áfram í því áttunda. Arnar Þór Viðarsson sat á varamannabekk Lokeren allan tímann.

HARALDUR Ingólfsson lagði upp þriðja mark Elfsborg sem vann Frölunda , 3:1, í sænsku úrvalsdeildinni í fyrrakvöld. Haraldur kom inná sem varamaður 20 mínútum fyrir leikslok.

STAN Collymore hefur verið settur á sölulista hjá Leicester og Peter Taylor , knattspyrnustjóri félagsins, segist ekki sjá fyrir sér að nota hann framar, til þess þyrfti mikið að breytast. Launakröfur hans í tengslum við nýjan samning sem settar voru fram í upphafi tímabilsins hafi verið langt umfram það sem Leicester sé tilbúið til að fallast á.

COLLYMORE gæti ennfremur átt fyrir höndum refsingu frá enska knattspyrnusambandinu. Þar á bæ er verið að skoða atvik í lok leiks Leicester við Everton á sunnudaginn en þá virtist Collymore stíga á hönd Pauls Gascoignes og slá síðan til hans.

GUÐJÓN Þórðarson , knattspyrnustjóri Stoke , hefur enn á ný gagnrýnt enska dómara í þarlendum fjölmiðlum. "Mig langar til að sjá ensku reglurnar því þær virðast vera öðruvísi en alþjóðlegu reglurnar sem ég hef vanist hingað til," sagði Guðjón og var sérlega óhress með hve vægt væri tekið á brotum aftan frá í ensku 2. deildinni.

HELGI Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Panathinaikos þegar liðið vann Hamburger SV í Þýskalandi í gærkvöld í meistaradeild Evrópu .

TONY Adams kemur að nýju inn í lið Arsenal í kvöld þegar liðið mætir Lazio í meistaradeild Evrópu . Adams hefur jafnað sig eftir meiðsli sem hann varð fyrir í landsleik Englands og Frakklands fyrr í þessum mánuði.

LEE Dixon , bakvörðurinn reyndi hjá Arsenal , hefur tilkynnt að hann muni hætta eftir þetta tímabil, ef félagið býður honum ekki nýjan samning. Dixon segist ekki vilja leika fyrir annað félag.