Því fer fjarri að það kveði við nýjan tón á lokaspretti dönsku kosningabaráttunnar vegna aðildar að evrópska myntbandalaginu, skrifar Urður Gunnarsdóttir í Kaupmannahöfn. Þótt spennan sé mikil og dregið hafi saman milli andstæðinga og fylgismanna evrunnar í Danmörku, virðist það samdóma álit margra að enn á ný gangi Danir til kosninga um sjálft Evrópusambandið og spurninguna hvort þeir vilji í raun vera hluti þess.

Kosningabaráttan í Danmörku snýst ekki eingöngu um aðild að evrópska myntbandalaginu og áhrif hennar á danskt efnahagslíf. Í margra augum snýst hún ekki síður um afstöðu Dana til Evrópusambandsins í heild sinni, enda þriðja atkvæðagreiðslan sem efnt er til á innan við áratug um einstök atriði er varða samstarfið innan sambandsins. "Hvers vegna á Danmörk að vera í ESB? Þeirri spurningu hafa Danir ekki svarað enn," segir virtur þýskur sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum, Christoph Bertram, í samtali við Berlingske Tidende. Spurningin segir líklega allt sem segja þarf um skoðun margra Evrópubúa til blendinnar afstöðu Dana til Evrópusambandsins.

Leiðarahöfundur Politiken er á sama máli, kemst að þeirri niðurstöðu að því miður hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að kosningabaráttan nú snúist um sömu spurningu og fyrr: Hvort aðild að ESB sé æskileg.

Hvað finnst Evrópu?

Þjóðarvitundin leikur stórt hlutverk í kosningabaráttunni, andstæðingar myntbandalagsins leggja áherslu á sjálfstæði landsins, réttinn til að taka eigin ákvarðanir, ábyrgð á eigin gerðum, á lýðræði. "Ég tel að danskt nei muni hafa afar jákvæð áhrif á lýðræðisþróun í Evrópu," segir ungur kvikmyndaleikstjóri, Thomas Vinterberg í auglýsingu andstæðinganna. Í orðum hans speglast sú skoðun Dana að niðurstaða þjóðaratkvæðisins muni hafa áhrif í öðrum Evrópuríkjum. Víst er að áhugi fjölmiðla víðs vegar um Evrópu er mikill, til marks um það eru tæplega 500 erlendir blaðamenn sem lagt hafa leið sína til Danmerkur.

Spurningin er hins vegar hvort það sama eigi við um almenning í aðildarríkjunum og hversu miklar áhyggjur stjórnvöld víðs vegar um Evrópu og ráðamenn í Evrópusambandinu hafa af atkvæðagreiðslunni. Í fyrrgreindu viðtali dregur Bertram ekki dul á að Evrópubúum sé nákvæmlega sama hvort Danir verði með í myntbandalaginu eða ekki. "Þess er vænst að ég segi að það hafi geysileg áhrif í Evrópu ef Danir segi nei. En það skiptir engu máli, það mun ekki hafa nein áhrif... Við munum einfaldlega draga þá ályktun að Danir eigi í erfiðleikum með að taka ákvarðanir er varða ESB, við höfum reyndar vanist því," segir Bertram. Hann dregur reyndar örlítið í land er hann viðurkennir að líklega muni gengi evrunnar falla, þó aðeins í nokkra daga, og að áhrifanna muni hvorki gæta í Svíþjóð eða Bretlandi, sem hvorugt eru aðilar að myntbandalaginu.

Fylgst með handan Eyrarsunds

Ekki er þó víst að allir taki undir með Bertram. Svíar fylgjast til dæmis grannt með framgangi mála í Danmörku, munu enda ganga til atkvæða um aðild innan fárra ára. Samkvæmt skoðanakönnun Demoskop er réttur helmingur Svía fylgjandi aðild að myntbandalaginu ef Danir ákveða að taka upp evruna í stað krónunnar. 39% eru andvígir aðild en 11% eru óákveðnir. Ekki er þó ljóst hvenær Svíar munu ganga að kjörborði um evruna, Göran Persson forsætisráðherra hefur látið nægja að lýsa því yfir að kosið verði um aðild, tímasetningin hefur enn ekki verið ákveðin.

Athygli vekur að samkvæmt sömu skoðanakönnun telja fjórir af hverjum fimm Svíum að Svíþjóð verði orðin aðili að myntbandalaginu innan fimm ára, hver svo sem niðurstaða dönsku skoðanakönnunarinnar verði.

Vonbrigði með kosningaumræðuna

Niðurstaða leiðarahöfundar Politiken er sú að dönskum stjórnmálamönnum hafi ekki, frekar en endranær, tekist að færa umræðuna á hærra plan, að ræða þá framtíðarsýn sem niðurstaða kosninganna muni leiða til. Fylgismenn myndbandalagsins hafi ekki útskýrt að hverju þeir muni stefna, hefji Danir þátttöku í því. Andstæðingarnir hafi lagt áherslu á að skipta Evrópu upp í svæði sem færi sig mishratt í átt að fullri aðild að Evrópusamstarfi á sama tíma og ESB leggi allt kapp á aðildarviðræður við ný aðildarríki í austri. Evrópuumræðan hafi þó dregið ýmislegt fram í dagsljósið um áhrif aðildar á danska velferðarkerfið, sem verið hefur mjög til umræðu í kosningabaráttunni, og beri að fagna því.

Það er ekki laust við að vonbrigða gæti í leiðara blaðsins með hinn kunnuglega tón kosningabaráttunnar en Nils Jørgen Nehrig, forstöðumaður dönsku utanríkismálastofnunarinnar (DUPI), segir að ekki hafi verið við öðru að búast. Reynslan sýni að umræða fyrir kosningar muni ævinlega fjalla um sjálfa aðildina að ESB, burtséð frá því hvað kosið sé um. "Að því leyti má ef til vill segja að það hafi verið fullmikil bjartsýni að telja að hægt yrði að takmarka umræðuna við efnahagsmál.

Ástæðu þess að sjálf Evrópusambandsaðildin sé hvað eftir annað hið raunverulega kosningamál segir Nehrig að megi rekja til þess tíma er Danir gerðust aðilar að ESB. Þá, eins og nú, hafi danskir kjósendur verið efins um hvað Evrópusamstarfið snerist um. Til að róa þá hafi áherslan verið lögð á hinn efnahagslega ávinning aðildar en pólitískar afleiðingar ekki ræddar sem skyldi. Fyrstu árin hafi það ekki komið að sök, en þegar undirbúningsviðræður vegna Maastricht-samningsins hófust hafi tvær grímur runnið á marga Dani, sem hafi hreinlega ekki skilið hvað var uppi á teningnum.

Þetta hefur svo leitt til þess að hræðsluáróðurinn hefur færst í aukana í kosningabaráttunni. Andstæðingar aðildar að myntbandalaginu vara við því að Danir muni ekki lengur ráða eigin málum, að velferðarkerfið sé í hættu og að verið sé að mynda nýtt risaríki í Evrópu. Fylgismenn vara við efnahagslegum afleiðingum þess ef aðild verður hafnað. Gripið hefur verið til ýmissa ráða, fylgismenn aðildar hafa til dæmis reynt að sýna andstæðinga aðildar sem öfgafólk til hægri og vinstri og hafa ýjað að því að þjóðernishyggja ráði ferðinni.

Kosið að nýju ef aðstæður breytast

Ríkisstjórnin hefði vart boðað til kosninga hefði hún ekki haft fulla trú á sigri. Í upphafi kosningabaráttunnar snemma vors nutu fylgismenn evrunnar enda töluverðs fylgis. Það hefur hinsvegar tínst af þeim og andstæðingunum vaxið fiskur um hrygg, fyrir viku virtust menn sannfærðir um að andstæðingar evrunnar myndu fara með sigur af hólmi. Síðustu daga hefur hins vegar dregið saman með fylkingunum að nýju. Samkvæmt skoðanakönnun sem Politiken birti í gær eru 46% andvíg en 43% fylgjandi og Gallup-könnun sem Berlingske Tidende birti styður það.

Hver svo sem úrslit atkvæðagreiðslunnar verða, verður tæplega um endanlega niðurstöðu að ræða. Í Jyllands Posten í gær lýstu nokkrir helstu leiðtogar andstæðinga evrunnar því nefnilega yfir að þeir væru reiðubúnir að ganga til atkvæða að nýju um málið færi svo að Svíar og Bretar gerðust aðilar að myntbandalaginu. Jens-Peter Bonde, talsmaður Júníhreyfingarinnar, segir Dani eiga að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu ef aðstæður breytist. Hann líkir evrunni við Titanic, en segir að þessi tvö lönd gætu komið í veg fyrir að skipið sykki. Holger K. Nielsen, formaður Sósíalíska þjóðarflokksins, segir að ef evrusamstarfið þróist á lýðræðislegan hátt geti vel verið að Danir geti verið með seinna. Þá hefur Pia Kjærsgaard, formaður Danska þjóðarflokksins, áður lýst því yfir að til greina komi að Danir gangi í myntbandalagið síðar. Aðeins talsmaður Einingarlistans stendur fast á því að ekki komi til greina að Danir taki upp evruna.

Ekki var að spyrja að viðbrögðunum hjá fylgismönnum aðildar að myntbandalaginu, sem sögðu andstæðingana hafa "skorað sjálfsmark", svo vitnað sé í Bendt Bendtsen, leiðtoga danskra íhaldsmanna. "Mér þykir þetta ótrúleg yfirlýsing. Ákvörðunin verður tekin á fimmtudag og henni verður ekki hægt að breyta svo árum skiptir."