Meistaraprófsfyrirlestur verður haldinn miðvikudaginn 27. september kl. 16 hjá Íslenskri erfðagreiningu, Lynghálsi 1, sal A. Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir flytur fyrirlesturinn "Fjölbreytileiki veira í hveravatni.

Meistaraprófsfyrirlestur verður haldinn miðvikudaginn 27. september kl. 16 hjá Íslenskri erfðagreiningu, Lynghálsi 1, sal A. Guðlaug Þóra Kristjánsdóttir flytur fyrirlesturinn "Fjölbreytileiki veira í hveravatni. Greining á tveimur hitakærum bakteríuveirum."

Í mastersnefnd sitja þau Guðmundur Óli Hreggviðsson, Jakob K. Kristjánsson og Sigríður Hjörleifsdóttir. Prófdómari er Ólafur Andrésson.

Markmið verkefnisins var tvíþætt: Annarsvegar að kanna fjölbreytileika veira í nokkrum hverum á Íslandi og í hitaveituvatni með rafeindasmásjá, hinsvegar að lýsa einangruðum veirum sem sýkja Thermus scotoductus og Rhodothermus marinus og rannsaka erfðamengi þeirra. Sýni úr 8 hverum voru skoðuð með rafeindasmásjá. Auk umhverfissýna voru skoðaðir 1.800 l af hitaveituvatni sem búið var að þétta niður í 300 ml.

Bakteríuveirur fundust í öllum umhverfissýnunum og voru 99 % greind til Caudovirales-ættbálksins. Í hitaveituvatni sáust einungis fá form sem gátu verið veirur.

Bakteríuveira sem sýkir bakteríuna Thermus scotoductus var ræktuð upp á skálum og í vökvarækt. Veirurnar eru þráðlaga, langar og grannar en stærð hylkjanna reyndist vera mjög mismunandi. Veirurnar valda varanlegri sýkingu (persistant infection) í hýslum sínum. Erfðaefni veirunnar er ein einþátta DNA-sameind, u.þ.b 4,4 kb á lengd. Byggt á ofangreindum upplýsingum var veiran greind til Inoviridae-ættarinnar með inovirus form.

Bakteríuveira, sem sýkir Rhodothermus marinus, var ræktuð upp á skálum og í vökvarækt. Veirurnar hafa hið dæmigerða form bakteríuveira; haus, háls og hala. Veirurnar valda rofasýkingu (lytic infection) í hýslum sínum.

Erfðaefni veirunnar er ein tvíþátta DNA-sameind, u.þ.b. 130 kb á lengd. Út frá ofangreindum upplýsingum var veiran greind til Myoviridae-ættar. Gen úr veirunni sem skráir fyrir DNA-pólymerasa var valið til klónunar og tjáningar í Escherichia coli, og tókst að fá væga tjáningu á því.