SH-þjónusta, dótturfyrirtæki, SH, hefur frá ársbyrjun boðið upp á rafræn viðskipti með fisk á Netinu. Þar að auki setti Coldwater í Bandaríkjunum af stað pöntunarkerfi sitt.

SH-þjónusta, dótturfyrirtæki, SH, hefur frá ársbyrjun boðið upp á rafræn viðskipti með fisk á Netinu. Þar að auki setti Coldwater í Bandaríkjunum af stað pöntunarkerfi sitt. Þessi netþjónusta er samskiptamiðill markaðsfyrirtækja, framleiðenda og SH-þjónustu. Stærstur hluti pantana fer í gegnum "e-services" eins og kerfið er nefnt og pantanakerfi Coldwater. "Þetta er stærsta netverslun landsins og líklega í heiminum í fiski," segir Kristján Hjaltason, framkvæmdastjóri SH-þjónustu. Mörg fyrirtæki eru nú að hefja þjónustu af þessu tagi til heimsviðskipta með fisk og eru meðal annars SÍF og Coldwater aðilar að slíku neti. Ekkert þeirra hefur enn náð umtalsverðum viðskiptum.

"Viðskiptin ganga þannig fyrir sig," segir Kristján. "Að loknum samningaviðræðum milli innkaupamanns og framleiðanda fær framleiðandinn tölvupóst með upplýsingum um að hans bíði pöntun á netinu og kemst hann beint í hana. Í pöntuninni koma fram öll atriði sem skipta máli, s.s. vörunúmer, magn, verð og greiðslu- og afhendingarskilmálar. Sé hún eins og um var samið staðfestir hann pöntunina, sem fer til baka til innkaupamanns. Framleiðandinn hefur á annari mynd yfirlit yfir allar pantanir sem hann hefur samþykkt og það eru sömu upplýsingarnar og innkaupamaðurinn hefur.

Þegar að afgreiðslu vöru kemur, sendir lestunarmaður afhendingarbeiðni til framleiðanda um að vörur verði afhentar og kynna hvernig að því verður staðið. Þetta á við um allar pantanir, einnig frá Bandaríkjunum. Að afhendingu lokinni skráir framleiðandinn inn í kerfið afhent magn og reikningsnúmer á afhendingarbeiðnina og um leið fær kaupandi þær upplýsingar á netinu. Það er mikilvægt, þar sem hann er þar með orðinn eigandi vörunnar.

Tæplega hundrað gámar hlaðnir reglulega

Flutningsaðili sækir vöruna til framleiðanda og upplýsir um mótttekið magn, en þær upplýsingar birtast einnig jafnóðum hjá kaupanda. Flutningsaðili kemur vörum í gám eða stórflutningaskip. Rafræn samskipti við flutningsaðila hafa tíðkast í langan tíma og eykur slíkt á öryggi í miðlun upplýsinga. Allan tímann er verið að vinna með sömu gögn og innkaupamaðurinn sló inn í byrjun. Á annað hundrað pantanir eru unnar vikulega af lestunarfólki og tæplega hundrað gámar hlaðnir auk reglubundinna stórflutninga," segir Kristján Hjaltason.

Þegar markaðsfyrirtæki SH hefur greitt reikning til framleiðanda getur það skráð greiðsludag og geta því starfsmenn erlendis og framleiðandinn fylgst með greiðslustöðu. Þar með er ferli einnar pöntunar lokið.

Einstakt vinnutæki

"E-services er einstakt vinnutæki sem keppinautar SH eru að reyna að ná tökum á. Framhaldið er að e-services tengist beint í tölvukerfi markaðsfyrirtækja og framleiðanda. Framtíðin mun leyfa að markaðsfyrirtækin hafi samskipti á þennan hátt við kaupendur sína. Ýmislegt af ofangreindum möguleikum Netsins eru enn að komast í notkun, það reynist oft taka langan tíma að hætta með fax-eintökin og snúa sér að nýjum miðli. Kostir rafrænnar miðlunar gagna eru ótvíræðir fyrir alla aðila: Öryggi, hraði og hagkvæmni eru lykilorð í viðskiptum. Og Netið lækkar kostnað, en það hlýtur að vera krafa til allra í dag," segir Kristján Hjaltason.