DAGUR stærðfræðinnar hér á landi er í dag, miðvikudaginn 27. september. Stjórn Flatar, samtaka stærðfræðikennara, ákvað að standa fyrir þessum degi í tilefni af ári stærðfræðinnar árið 2000. Þema dagsins er rúmfræði.

DAGUR stærðfræðinnar hér á landi er í dag, miðvikudaginn 27. september. Stjórn Flatar, samtaka stærðfræðikennara, ákvað að standa fyrir þessum degi í tilefni af ári stærðfræðinnar árið 2000. Þema dagsins er rúmfræði. Flötur hefur gefið út rit sem í eru rúmfræðiverkefni fyrir kennara til þess að nota á þessum degi og hefur því verið dreift í alla skóla landsins. Segir í fréttatilkynningu frá Fleti að vona beri að í dag verði stærðfræðinni veitt sérstök athygli og nemendur fái að glíma við skemmtileg rúmfræðiverkefni.

Í tilefni dagsins mun Hagsmunafélag um eflingu verk- og tæknimenntunar á háskólastigi á Íslandi og Íslenska stærðfræðafélagið standa fyrir opnum umræðufundi í Hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 17. Yfirskrift fundarins er "Er stærðfræðikennslan á villigötum?" Framsögumenn verða: Anna Kristjánsdóttir, stærðfræðingur, prófessor við Kennaraháskóla Íslands, Ellert Ólafsson, verkfræðingur, framkvæmdastjóri Tölvu- og stærðfræðiþjónustunnar í Reykjavík og Lárus H. Bjarnason, stærðfræðingur, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Fundarstjóri verður Sven Þ. Sigurðsson, stærðfræðingur, prófesor við Háskóla Íslands, segir í fréttatilkynningunni.

Allir áhugamenn um stærðfræði eru velkomnir.