Bensínálögurnar koma hart niður á þeim sem þurfa að nota bílana mikið en eru hvorki réttlátari né óréttlátari en aðrir neysluskattar. Og þær eru áreiðanlega skynsamlegar þegar allt er tekið með í reikninginn.

Fyrirhyggja er alveg bráðnauðsynleg. Mér hefur alltaf fundist furðulegt að fólk skuli ekki gera meira af því að spara til elliáranna og stunda líkamsæfingar til að halda heilsu, svo að eitthvað sé nefnt. Allir hljóta að sjá hvað þetta er sjálfsagt. En samt á ég ekki sparifé frekar en flestir Íslendingar og líkamsæfingarnar eru vægast sagt stopular. Þær hafa oftast orðið út undan. Líklega erum við nokkuð mörg, þessi sem þurfum að fá ákveðna leiðsögn og jafnvel stöku sinnum stýringu í sumum málum.

Við viljum að stjórnmálamenn geri ekki alltaf og undantekningalaust það sem almenningur krefst þá stundina, við viljum að þeir geri stundum óvinsæla hluti og hafi þá framtíð samfélagsins og fyrirhyggju að leiðarljósi. Fyrirhyggjuna sem við höfum gleymt eða sættum okkur við með ólund.

Þegar fólk heimtar að skattar á bensín verði lækkaðir ætti það að velta því vandlega fyrir sér hvort ekki væri ráð að bæta kjör barnafólks og annarra launþega með öðrum aðferðum. Við gætum til dæmis fengið ráðamenn til að lækka tekjuskattinn. Bensínálögurnar koma hart niður á þeim sem þurfa að nota bílana mikið en eru hvorki réttlátari né óréttlátari en aðrir neysluskattar. Og þær eru áreiðanlega skynsamlegar þegar allt er tekið með í reikninginn. Þeir sem segja að bensínskattarnir séu ekki notaðir í þágu samgangna virðast gleyma því að sama ríkið og tekur af okkur þessa skatta sér um vegina og viðhald þeirra, löggæslu á þeim, umönnun þeirra sem slasast í umferðinni. Hvað kostar allt þetta okkur skattborgara, halda menn að peningarnir fyrir þessum útgjöldum komi að handan? Tengjast þessi útgjöld ekkert bílanotkun?

Orðið neyslustýring hefur ekki fagran hljóm í eyrum okkar sem finnst að ríkisvaldið sé allt of víða með krumlurnar. En ef það er ætlunin að draga úr opinberum afskiptum verður að velja og hafna. Fæstir markaðshyggjumenn eru svo heittrúaðir að þeir mæli með afnámi ríkisvaldsins.

Á hinn bóginn er áróðurinn gegn bensíni og bílanotkun oft svo misheppnaður að hann espar upp í okkur mótþróa. Líklega er ein af ástæðum þess að margir hægrimenn taka svo ákaft og gagnrýnislaust upp hanskann fyrir óhefta aðstoð ríkisins við fjölskyldueinkabílinn að þeim blöskrar tómahljóðið í sumum röksemdum umhverfissinna gegn bílnum.

Skelfingarspár um gróðurhúsaáhrif eiga sér ekki traustar stoðir. Þær byggjast á niðurstöðum í sérfræðingaskýrslum sem undantekningalaust eru settar fram með fyrirvara um að óvissuatriði séu fjölmörg, varast beri að oftúlka eða fullyrða of mikið, enn þurfi að rannsaka þessi mál miklu betur. Með öðrum orðum, að þekkingin er enn allt of lítil til að hægt sé að fullyrða nokkurn skapaðan hlut um gróðurhúsaáhrif og þróun þeirra.

Þetta er allt satt og rétt en samt er það varasamt að afgreiða þannig allt talið um koldíoxíðlosun. Öfgarnar og rangtúlkanirnar eru engin sönnun fyrir því að þeir hafi örugglega rangt fyrir sér sem boða hamfarir vegna brennslu olíu og bensíns. Þær sanna aðeins að beitt er vondum aðferðum í baráttunni gegn þessum orkugjöfum. Og í einu hafa þeir rétt fyrir sér: olían mun einhvern tíma verða búin. Sem merkir að ef við ætlum að sýna fyrirhyggju verður að huga að annarri lausn, annarri aðferð við að knýja farartækin.

Eitt af því sem ýtir undir að gerðar séu tilraunir með aðrar leiðir, vetni og fleira, er að olía sé ekki svo ódýr og ávallt svo mikið til af henni að við sofnum á verðinum. Fyrst í stað verða bílar sem knúnir eru öðru en olíu og bensíni dýrari en hinir. Ástæðan er augljós, miklu meira er framleitt af hinum og þeir njóta því hagkvæmni stærðarinnar, fjöldaframleiðsla lækkar framleiðslukostnaðinn við hvern bíl.

Ef lausnin verður að nota efnarafala þarf að reisa stöðvar þar sem hægt er að fá vetni á tankinn. Það kostar peninga. Nýtt dreifingarkerfi verður ekki til eins og hendi sér veifað og eitt af því sem erlend risafyrirtæki dreymir um er meðal annars að gera Ísland að tilraunastofu í þessum efnum. Menn vilja kanna hvað muni helst standa í veginum, hve dýrt verði að skipta úr olíu og bensíni yfir í vetni.

Annar ókostur við olíuna sem vill gleymast er að Vesturlönd og Japan eru nú svo háð olíulindunum í Miðausturlöndum að Saudi-Arabar, Íranar og fleiri framleiðsluþjóðir hafa í reynd kverkatak á efnahag heimsbyggðarinnar. Þeir sem vilja óbreytt ástand í olíunotkun og jafnvel nota meira eru um leið að segja að áfram skuli verja ótöldum milljörðum dollara á hverju ári í að halda að staðaldri úti öflugum, vestrænum herflotum á þessum slóðum. Senda beri hundruð þúsunda hermanna á vettvang, eins og gerðist í Persaflóastríðinu 1990-1991, í hvert sinn sem eitthvað ógni lífsmunstri okkar. Sem byggist á gnægð af ódýrri olíu. Hætt er við að olían sé nokkuð dýr að öllu samanlögðu þegar þessum eftirlitskostnaði er bætt við verðið.

Vilja herskáu mótmælendurnir í Bretlandi, Frakklandi og annars staðar að olíuhagsmunir vestrænna þjóða í einræðislöndum Miðausturlanda séu varðir með kjafti og klóm, hvað sem það kostar? Menn ættu að velta því meira fyrir sér hvað olía kostar í reynd og hvað það getur kostað okkur í framtíðinni að vera orðin jafn háð henni og raun ber vitni. Hækkun á heimsmarkaðsverði veldur því nú að ríkisstjórnir riða til falls en hvernig yrði ástandið ef allt færi í bál og brand í Saudi-Arabíu og þaðan kæmi engin olía?

Kristján Jónsson