Húsið við Helgamagrastræti 10.
Húsið við Helgamagrastræti 10.
ÚRSKURÐARNEFND skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi í heild sinni ákvörðun bygginganefndar Akureyrar frá því í apríl í vor, vegna húseignarinnar að Helgamagrastræti 10 á Akureyri.

ÚRSKURÐARNEFND skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi í heild sinni ákvörðun bygginganefndar Akureyrar frá því í apríl í vor, vegna húseignarinnar að Helgamagrastræti 10 á Akureyri. Eigendur húseignarinnar kærðu þá ákvörðun bygginganefndar og samþykkt bæjarstjórnar að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir þeim hlutum húseignarinnar að Helgamagrastræti 10 sem eru austan eignarinnar og um að fjarlægja skuli byggingarhluta I og II fyrir 15. júní. Jafnframt var kærð ákvörðun um að leggja dagsektir, kr. 50.000, verði teikningum að breytingum á eigninni ekki skilað inn fyrir 15. maí 2000.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafnaði hins vegar kröfu kærenda um að staðfest verði að ekki sé heimilt að fjarlægja umrædda hluta byggingarinnar að Helgamagrastræti 10 og að bygginganefnd beri að veita leyfi fyrir þeim. Úrskurðarnefndin leggur fyrir bygginganefnd að taka umsókn kærenda um byggingaleyfi til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu hennar í samræmi við gildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og að gættum ákvæðum stjórnsýslulaga.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar kemur fram að kærendur hafi reist umfangsmiklar viðbyggingar við hús sitt að Helgamagrastræti 10 án þess að hafa fengið leyfi bygginganefndar til þeirra framkvæmda. Verði helst ráðið af málsgögnum að framkvæmdir þessar hafi staðið með hléum allt frá árinu 1992 og fram til haustsins 1997. Með þessum framkvæmdum hafi verið gróflega brotið gegn ákvæðum þágildandi byggingalaga um byggingaleyfi og fleira og gegn ýmsum ákvæðum þágildandi byggingareglugerðar.

Ýmsar athugasemdir gerðar

Úrskurðarnefnd gerir athugasemdir við ýmsar ákvarðanir í bæjarkerfinu. Eftir að bæjarlögmaður hafi tilkynnt formlega um stöðvun framkvæmda í september 1997 og eigendum gert að fjarlægja ólögmæta byggingarhluta, hafi ekki verið gerð úttekt á verkstöðu á byggingarstað sem þó hafi verið nauðsynlegt.

Þá telur úrskurðarnefnd að byggingarfulltrúi hafi átt að fylgja eftir hótun um að höfða opinbert mál, þegar ljóst var að kærendur sinntu ekki kröfum um brottnám hinna ólögmætu framkvæmda, ef ætlun hans var að knýja fram niðurrif hinna ólöglegu byggingarhluta. Hefði í slíku máli fengist dómsúrlausn um kröfur byggingaryfirvalda um brottnámið. Með því að láta undir höfuð leggjast að hlutast til um málshöfðun verði að telja að byggingarfulltrúi hafi í raun fallið frá því að beita úrræðum byggingarlaga, sérstaklega þegar haft er í huga að honum var einungis heimilt en ekki skylt að krefjast niðurrifs. Verði því ekki við úrlausn kærumálsins litið til þeirra ákvarðana sem teknar höfðu verið um að beita kærendur þvingunarúrræðum haustið 1997.