Stefán Thors
Stefán Thors
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðkoma sérfræðinga og almennings, segja Stefán Thors og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, að undirbúningi framkvæmda, umfjöllun um framkvæmdir og ákvörðun um þær hefur stóraukist.

GÍSLI Már Gíslason gerir gæði mats á umhverfisáhrifum að umtalsefni í grein sinni í Morgunblaðinu sl. föstudag. Þar bendir hann á úrbætur varðandi það hvaða hlutverki vísindamenn ættu að gegna við undirbúning, gerð og yfirferð á mati á umhverfisáhrifum í þeirri von að Skipulagsstofnun taki upp ný og betri vinnubrögð svo að ekki leiki vafi á trúverðugleika stofnunarinnar í úrskurðum hennar. Þær úrbætur á matsferlinu sem Gísli Már leggur til í grein sinni eru að Skipulagsstofnun leiti sérfræðiálits með þeim hætti að stofnunin kalli að jafnaði til þrjá til fimm vísindamenn sem ekki tengjast framkvæmdaaðilum eða öðrum hagsmunaaðilum sem hafa fjárhagslegan ávinning af væntanlegri framkvæmd.

Skipulagsstofnun fagnar opinskárri umræðu um matsferlið og framkvæmd mats á umhverfisáhrifum. Ekki verður hér mælt með eða á móti tillögum Gísla Más um breytingar á matsferlinu en hins vegar er rétt að vekja athygli á tilteknum þáttum þess matsferlis sem verið hefur við lýði hér á landi sl. 6 ár og fest hefur verið í sessi og bætt með nýjum lögum frá Alþingi sl. vor og ætlað hefur verið að tryggja vandaða og lýðræðislega málsmeðferð um þær framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Nú eru liðin rúm 6 ár frá því mat á umhverfisáhrifum var tekið upp hér á landi lögum samkvæmt. Í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun leitað umsagna tiltekinna aðila um allar þær matsskýrslur sem koma til formlegrar umfjöllunar stofnunarinnar auk þess sem skýrslurnar eru kynntar almenningi með auglýsingu til athugasemda og ábendinga. Skipulagsstofnun leitar ávallt umsagnar hjá þeim opinberu stofnunum sem fara með þá málaflokka sem framkvæmd, framkvæmdasvæði og/eða umhverfisáhrif framkvæmdar geta helst varðað. Það fer eftir eðli framkvæmdar og staðsetningu hverju sinni til hverra er leitað en þeirra á meðal eru Byggðastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd ríkisins, embætti veiðimálastjóra, Hollustuvernd ríkisins og Þjóðminjasafn Íslands. Þessar stofnanir veita umsagnir, hver á sínu sérsviði, um framlögð gögn framkvæmdaraðila um framkvæmd og umhverfisáhrif, hvort umhverfisáhrif séu að þeirra mati viðunandi og eftir atvikum hvaða atriðum þurfi að þeirra mati að gera betur grein fyrir.

Með nýjum lögum nú í sumar hefur verið tryggt enn frekar að sérfræðistofnanir geti komið að athugasemdum og ábendingum við mat á umhverfisáhrifum. Nú leitar Skipulagsstofnun einnig umsagna þeirra um tillögur framkvæmdaraðila að matsáætlun þar sem sérfræðistofnanir fá þá tækifæri til að koma að athugasemdum og ábendingum um hvernig staðið skuli að mati á umhverfisáhrifum strax á byrjunarstigi matsferlisins þegar framkvæmdaraðili er að hefja vinnu við matsskýrslu.

Við umfjöllun Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila getur komið upp að efni matsskýrslu þarfnist sérstakrar athugunar, jafnvel á fagsviði sem ekki fellur beint undir hlutverk þeirra umsagnarstofnana sem eru til staðar. Þá getur verið þörf á að leita eftir sérstöku sérfræðiáliti, ýmist til opinberra aðila eða einkaaðila, svo fá megi hlutlaust álit utanaðkomandi aðila með sérþekkingu á viðkomandi efni á gögnum og ályktunum matsskýrslu framkvæmdaraðila. Reynsla síðustu ára sýnir að sérfræðiálit af þessu tagi geta varðað mjög þröng fagsvið. Þannig er ekki unnt að skilgreina fyrir fram hóp sérfræðinga í þetta hlutverk heldur verða viðfangsefni og álitamál að ráða hverju sinni.

Hægt er að fullyrða að aðkoma sérfræðinga og almennings að undirbúningi framkvæmda, umfjöllun um framkvæmdir og ákvörðun um þær hefur stóraukist með tilkomu laga um mat á umhverfisáhrifum fyrir 6 árum. Ný lög um mat á umhverfisáhrifum eru nú rétt að slíta barnskónum og reglugerð við þau verður birt í Stjórnartíðindum í þessari viku. Þar er enn aukinn möguleiki sérfræðinga og almennings til að fá upplýsingar um framkvæmdir og koma að ábendingum og athugasemdum í matsferlinu öllu, allt frá því framkvæmdaraðili hefur vinnu við tillögu að matsáætlun og þar til fyrir liggur úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Með því á að vera tryggt að markmiðum laganna sé náð, þ.e. að umhverfisáhrif þeirra framkvæmda sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif séu metin og kynnt almenningi og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta eða láta sig málið varða og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum og upplýsingum. Þannig verði einnig tryggt að ákvarðanir um framkvæmdir byggist á faglegum sjónarmiðum og bestu þekkingu á hverjum tíma.

Stefán er skipulagsstjóri ríkisins. Ásdís Hlökk er aðstoðarskipulagsstjóri.