MÖRGUM finnst sem möguleikar Mika Häkkinen á að verða heimsmeistari í Formúlu-1 þriðja árið í röð hafi fuðrað upp í reyknum frá eldinum í mótornum á McLaren-bíl hans í Indianapolis.

MÖRGUM finnst sem möguleikar Mika Häkkinen á að verða heimsmeistari í Formúlu-1 þriðja árið í röð hafi fuðrað upp í reyknum frá eldinum í mótornum á McLaren-bíl hans í Indianapolis. Sjálfur er hann ekki á því og heitir því að gefa hvergi eftir fyrr en köflótta flaggið fellur í lokamótinu. Með sigrinum í Indianapolis er Michael Schumacher hins vegar kominn með 8 stiga forystu á Häkkinen þegar aðeins tvö mót eru eftir og róður Häkkinens getur því ekki verið þyngri ætli hann sér að verða fyrsti ökuþórinn í rúm fjörutíu ár sem vinnur heimsmeistaratitilinn þrjú ár í röð.

Útlit var fyrir spennandi keppni milli Schumachers og Häkkinens í Indianapolis, því er brautin tók að þorna sótti silfurör Häkkinens á Ferrari-fák Schumachers. Ók sá fyrrnefndi hvern hringinn á fætur öðrum heillri til hálfri annarri sekúndu hraðar er um þriðjungur keppni var búinn og stefndi í slag um forystuna. Munaði aðeins 4 sekúndum eftir að bilið hafði verið 40 um skeið. En búmm, botninn datt fljótt úr þeirri keppni. Dramatískar myndir birtust á sjónvarpsskjánum af Häkkinen á hægu slefi inn að bílskúrum með logana standandi undan vélarhúddinu á 26. hring af 73. Þangað komst hann ekki alla leið og vonbrigðin leyndu sér ekki er hann steig upp úr rjúkandi bílnum.

Eftir þetta var engin spenna í keppninni nema um þriðja sætið og önnur aftar. Schumacher ók til öruggs sigurs og var aldrei ógnað nema af sjálfum sér er einbeitingarleysi varð þess valdandi að hann missti bílinn út fyrir brautarkant á beygju og snerist heilhring þegar fimm hringir voru enn á mark. Bjargaði það honum að grasbalinn var rennisléttur og hindrunarlaus. Bíllinn hélst í gangi svo hann gat tekið á stað aftur eins og ekkert hefði í skorist. "Ég vaknaði við þetta, sagði hann og játti að einbeitingin var engin sakir þess hve örugg forystan var og enginn sótti að honum.

Vélarbilunin er sú fyrsta sem bindur enda á akstur Häkkinens eftir að hafa unnið stig í 12 mótum í röð. Titilvonirnar hafa minnkað verulega því úr þessu dugar honum ekki að vinna bæði mótin sem eftir eru ef Schumacher kemur í öðru sæti á mark í báðum. Þá væru þeir jafnir að stigum en Schumacher með 7 mótssigra gegn 6. Þótt útlitið sé svart hefur Häkkinen ekki gefist upp; ætlar ekki að færa Schumacher titilinn á silfurfati.

Taugarnar þandar í herbúðum McLaren næstu vikur

"Þetta var svekkjandi því ég hélt að ég myndi fara með sigur af hólmi," segir Häkkinen og kveðst enn hafa trú á að hann geti fagnað í vertíðarlok þótt staðan hafi snúist Ferrari mjög í hag. "Það eru tvö mót eftir, þetta er ekki búið. Þetta verður bardagi alveg þar til vertíðinni lýkur. Átta stiga munur er ekkert. Enn getur allt gerst, rétt eins og við höfum áður séð á vertíðinni. Ég gefst ekki upp þótt útlitið kunni að vera svart," segir Finninn fljúgandi. Hann kvaðst ekki vita hvað olli því að vélin bilaði, en það er í fyrsta sinn sem McLaren-bíllinn bilar frá í Brasilíukappakstrinum. "Þegar við lyftum húddinu af kom í ljós að hún hafi skemmst alvarlega," bætir hann við.

Ron Dennis, aðalstjórnandi McLaren, segir að allt sem Häkkinen þurfi að gera sé að vinna næstu tvö mót. Það kunni að líta út fyrir að vera einkar erfitt, en að sínu mati sé það ekki. "Ég held við séum sterkir í þeim tveimur brautum sem eftir eru. Við förum til mótanna með því að reyna vinna þau bæði," segir hann. Dennis viðurkennir þó að taugar McLaren-manna verði verulega þandar það sem eftir er keppnistímabilsins. "Þetta er eins og rússíbanareið hjá okkur núna, en svoleiðis er nú Formúla-1 og hún er ekki fyrir þá veiklunduðu," bætir hann við.

Ferrari finnur reykinn af réttunum

Í herbúðum Ferrari eru menn hins vegar farnir að finna reykinn af réttunum og vona að biðin eftir heimsmeistaratign ökuþóra sé loks á enda, eftir 21 árs bið. Jean Todt íþróttastjóri Ferrari brosti út að eyrum eftir tvöfaldan sigur í Indianapolis og talaði eins og hann sæi hilla undir titilinn langþráða. "Þetta er áttundi sigur Ferrari á árinu og við höfum unnið 143 stig. Hvort tveggja er met í sögu Ferrari. Á degi sem þessum sækir hugsunin um heimsmeistaratignina enn meira á en við vitum þó að þó aðeins séu tvö mót eftir er vegurinn framundan enn langur og torfarinn," sagði Todt.

Vinni Schumacher næsta kappakstur, í Suzuka í Japan eftir 11 daga, verður brosið á Todt enn breiðara. Þá yrði titillinn í höfn og lokamótið formsatriði. Yrði það í fyrsta sinn frá 1995 sem sú staða kæmi upp en þá hampaði Schumacher einnig heimsmeistaratitli, á lokaári sínu hjá Benetton.

Ágúst Ásgeirsson skrifar