KRISTINN Guðnason, hrossabóndi á Skarði í Landsveit og fjallkóngur, segir að af frétt í Morgunblaðinu sl. sunnudag um lausagöngu hrossa í Landmannalaugum megi skilja að þarna hafi 100 hross verið á beit samfleytt í þrjá daga um miðjan septembermánuð.

KRISTINN Guðnason, hrossabóndi á Skarði í Landsveit og fjallkóngur, segir að af frétt í Morgunblaðinu sl. sunnudag um lausagöngu hrossa í Landmannalaugum megi skilja að þarna hafi 100 hross verið á beit samfleytt í þrjá daga um miðjan septembermánuð. Þetta segir Kristinn að sé af og frá.

Kristinn segir að í fyrsta lagi hafi hrossin eingöngu verið 90 talsins og í öðru lagi hafi hestunum verið beitt í eina klukkustund á morgnana og hluta af þeim í tvær klukkustundir á kvöldin. Hestunum hafi verið gefin heil heyrúlla á dag sem þeir stóðu í megnið af sólarhringnum.

"Við erum ekki að fara á fjall til að beita heldur til að nota hestana. Hestar hafa alltaf verið í Landmannalaugum hjá fjallmönnum svo lengi sem sögur herma. Þessi gróður sem er þarna hefur þrifist þrátt fyrir það og það hefur engin breyting orðið á honum. Við höfum farið í þennan afrétt á hverju ári og alltaf verið eins staðið að þessu. Ekkert hefur verið amast við þessu fyrr," segir Kristinn.

Hann segir að þótt Landmannalaugar séu friðland sé ekki þar með sagt að það sé friðað fyrir beit. "Það hefur aldrei verið nein hrossabeit þarna nema í fjallferð og þá hefur þessi hefð alltaf verið. Sá gróður sem er í Landmannalaugum hefur þrifist þrátt fyrir það og kannski einmitt vegna þess hve beitin er lítil og í stuttan tíma. Það getur vel verið að það sé ekki verra fyrir þessa mýri að hún sé bitin heldur en að hún leggist í sinu á hverju ári. Við viljum vernda afréttinn okkar og fáir hafa líklega gert meira í því. Við höfum komið upp hólfum fyrir ferðamenn og Náttúruverndarráð hefur alltaf vitað um fjallssmölun og hvernig að henni er staðið," segir Kristinn.