Bryndís Halla  Gylfadóttir
Bryndís Halla Gylfadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verði ekki mikil breyting á kjörum og aðstæðum SÍ á næstunni telja Bryndís Halla Gylfadóttir og David Bobroff næsta víst að hljómsveitin hafi á þessum síðustu misserum náð listrænum hápunkti og að leiðin héðan í frá verði óhjákvæmilega niður á við.

Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) stendur á tímamótum. Á síðasta starfsári hélt hún upp á 50 ára starfsafmæli sitt. Hljómsveitin hefur tekið gífurlegum framförum á undanförnum árum. Meðal hápunkta má nefna tónleikaferð til Bandaríkjanna þar sem hljómsveitin spilaði undir stjórn Osmo Vänskä og hlaut frábæra dóma. Um svipað leyti og sú ferð var farin hóf hljómsveitin upptökur á verkum Jóns Leifs fyrir hið þekkta útgáfufyrirtæki BIS. Hafa þessar upptökur fengið afar lofsamlega dóma í erlendum fjölmiðlum sem og fjölmargar aðrar upptökur sem hljómsveitin hefur gert fyrir erlend útgáfufyrirtæki. Verði ekki mikil breyting á kjörum og aðstæðum SÍ á næstunni má telja öruggt að hljómsveitin hafi á þessum síðustu misserum náð listrænum hápunkti og að leiðin héðan í frá verði óhjákvæmilega niður á við.

Kjör hljómsveitarmeðlima eru afleit. Launin duga vart fyrir föstum útgjöldum og er þá undanskilinn matur, klæðnaður og aðrar nauðþurftir. Starfsmenn SÍ þurfa því að taka að sér margvísleg aukastörf til þess að endar nái saman. Hér ber að geta þess að starf í SÍ er talið fullt starf. Það eiga ekki allir í hljómsveitinni kost á að vinna aukavinnu á sínu sviði þar sem eftirspurn eftir hljóðfærum er mismikil. Ekki hafa allir meðlimir SÍ aðra fyrirvinnu sér við hlið og þurfa þessir einstaklingar því að lifa á smánarlaunum SÍ í landi þar sem verðlag er hvað hæst í Evrópu.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var nýlega í Hollandi eru hljómsveitir þar mjög illa launaðar. Laun í sambærilegum hljómsveitum í Þýskalandi eru 20 til 100% hærri. Laun í SÍ eru lægri en lægstu laun í hollenskum hljómsveitum, en framfærslukostnaður er mun hærri hér en í Hollandi.

Í Bandaríkjunum þykir það beinlínis neyðarúrræði fyrir tónlistarmann að sækja um starf í hljómsveitum innan bandaríska hersins. Í nýlegu tölublaði The International Musician voru auglýstar nokkrar stöður í slíkum hljómsveitum. Lægstu laun sem í boði voru voru á bilinu sem nemur 136 til 142 þúsund íslenskra króna í byrjunarlaun á mánuði. Þetta er svipuð upphæð og leiðandi hljóðfæraleikarar í SÍ hafa í laun. Í einu tilviki voru í boði 226 þúsund krónur á mánuði. Eru þetta 61% hærri laun en flestir í SÍ hafa. Í þessu samhengi má ekki gleyma að starfsmenn bandarísku herhljómsveitanna fá ókeypis húsnæði, aukafjárveitingar fyrir maka og börn, herinn greiðir upp ógreidd námslán, auk þess sem starfsævin er stutt og rífleg eftirlaun í boði.

Nýlega voru auglýst störf hjá 10-11-verslununum. Byrjunargrunnlaun sem í boði voru nema 106.767 kr. á mánuði og hækka þau upp í 114.749 kr. eftir sex mánuði. Vinni nýr starfsmaður í tuttugu mánuði eru honum greiddar 300.000 kr. í bónus eða um 15 þúsund kr. á mánuði þessa tuttugu mánuði. Meðaltalið er því 127.354 kr. á mánuði í tuttugu mánuði auk þess sem afsláttur er veittur á vörum í viðkomandi verslun. Eru þessi laun því hærri en byrjunarlaun í SÍ. Það er fráleitt að Sinfóníuhljómsveit Íslands skuli greiða hljóðfæraleikurum sínum lægri laun en ófaglært afgreiðslufólk í verslunum hefur. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur sent frá sér geisladiska sem standast fyllilega samanburð við það besta sem gert er erlendis, hún hefur fengið frábæra dóma bæði hérlendis og erlendis og hún þjónar Íslandi sem óumdeilanlegur sendiherra tónlistarmenningar á alþjóðavettvangi.

Eitt af því sem kom fram í áðurnefndri hollenskri rannsókn var að þjálfun atvinnuhljóðfæraleikara er með því lengsta sem gerist í klukkustundum talin. Hljóðfæraleikarar í SÍ hafa að öllum jafnaði stundað tónlistarnám með skóla frá sjö eða átta ára aldri og síðar stundað framhaldsnám í tónlistarskólum og tónlistarháskólum frá fjórum og upp í sjö ár. Það er því gífurleg sérmenntun sem atvinnutónlistarmenn hafa að baki. Það vita kannski ekki allir að tónlistarnám atvinnuhljóðfæraleika krefst geysilegs sjálfsaga, linnulausra æfinga og huglægrar og líkamlegrar þjálfunar.

Starf hljóðfæraleikara í sinfóníuhljómsveit krefst geysilegrar einbeitingar og nákvæmni þar sem brot úr sekúndu getur skipt sköpum. Í sinfóníuhljómsveit verður samhæfing meðlima að vera alger. Það gefur því augaleið að líkamlegt og andlegt álag er geysilegt.

Væri eitthvert samræmi á milli menntunar, þjálfunar og álags hljóðfæraleikara í SÍ annars vegar og launa hins vegar væru þeir vafalítið á meðal hæstlaunuðu ríkisstarfsmanna hér á landi í stað þess að vera á meðal hinna lægstlaunuðu. Það er útbreiddur misskilningur að tónlistarmenn stundi listgrein sína ánægjunnar vegna. Þrátt fyrir að margir tónlistarmenn séu eflaust ánægðir í vinnunni er það mjög krefjandi að vera atvinnumaður á hljóðfæri. Það er bæði óréttlátt og óraunhæft að gera þær kröfur til hljómsveitarinnar sem gerðar eru á meðan hljómsveitarmeðlimir geta ekki lifað af launum sínum. Eins og sakir standa byggjast laun SÍ á fjörutíu klukkustunda vinnuviku sem samanstendur af hljómsveitaræfingum, tónleikum, upptökum og heimaæfingum. Sé miðað við meðallaun sem eru 125.000 kr. á mánuði miðað við 173 vinnustundir er tímakaupið 722,54 kr. Það gefur augaleið eins og áður er getið að slík smánarlaun hrökkva hvergi til lífsviðurværis og af þeim sökum neyðast hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar til að taka að sér alls kyns aukavinnu. Fyrr eða síðar mun slíkt aukaálag koma niður á gæðum hljómsveitarinnar.

Nú þegar eru margir íslenskir hljóðfæraleikarar á leið til annarra landa til að vinna að list sinni. Margir eru þegar farnir. Hljómsveitarmeðlimir SÍ eru margir hverjir að leita að störfum erlendis, en aðrir munu snúa sér að öðrum störfum en tónlist. Á þetta við Íslendinga sem og útlendinga í hljómsveitinni. Vert er að geta þess í þessu samhengi að frá og með starfsárinu 2000-2001 eru byrjunarlaun í New York Philharmonic 100.000 bandaríkjadalir á ári eða rúmlega 8 milljónir íslenskra króna.

Ríkið hefur ákveðið að starfrækja sinfóníuhljómsveit. Fyrir það þarf að borga. Breytist ekki núverandi kjör meðlima SÍ eru allar líkur á að hljómsveitin leysist upp. Þegar bent er á óviðunandi kjör SÍ er borið við peningaleysi. Því var ekki til að dreifa þegar alþingismenn skömmtuðu sjálfum sér laun. Launahækkun hvers þingmanns nam heildarlaunum starfsmanns í SÍ.

Reykjavíkurborg er ein af menningarborgum Evrópu árið 2000. Sinfóníuhljómsveit Íslands er einn af hornsteinum íslenskrar menningar. Þrátt fyrir það eru laun starfsmanna hennar ríkinu til helberrar hneisu. Vill ríkið reka sinfóníuhljómsveit með þeim skuldbindingum sem það felur í sér eða er rekstur hennar sýndarmennska ein?

Höfundar eru hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands.