EMBÆTTI ríkislögreglustjóra hefur sent ríkislögmanni erindi Þingvallavatnssiglinga ehf. vegna kristnihátíðar á Þingvöllum í sumar þar sem ríkið er krafið skaðabóta vegna meints tekjutaps af vegalokun til fyrirtækisins á meðan hátíðin fór fram.

EMBÆTTI ríkislögreglustjóra hefur sent ríkislögmanni erindi Þingvallavatnssiglinga ehf. vegna kristnihátíðar á Þingvöllum í sumar þar sem ríkið er krafið skaðabóta vegna meints tekjutaps af vegalokun til fyrirtækisins á meðan hátíðin fór fram. Fleiri ferðaþjónustuaðilar við Þingvallavatn íhuga að leita réttar síns af sömu ástæðu.

Þegar lokun afleggjarans til bæjarins Skálabrekku í Þingvallasveit, þaðan sem báturinn Himbrimi er gerður út til skoðunarferða, hafði verið ákveðin sendu forráðamenn fyrirtækisins kvörtun til ríkislögreglustjóra sem fór með skipulag umferðarmála á kristnihátíð. Ríkislögreglustjóri benti Þingvallabændum á að senda erindið til fjármálaráðuneytisins sem vísaði málinu aftur til ríkislögreglustjóra. Endanleg niðurstaða var að senda erindið til ríkislögmanns þar sem farið er fram á skaðabætur úr ríkissjóði. Í kröfu Þingvallavatnssiglinga kemur m.a. fram, samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra, að fyrirtækið hafi orðið af viðskiptum þá helgi sem kristnihátíðin fór fram þar sem leiðir til fyrirtækisins voru tepptar. Ekki hefðu verið tök á að selja í bátsferðir og flytja fólk að Skálabrekku.

Fréttu af lokun fyrir tilviljun

Kolbeinn Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Þingvallavatnssiglinga, sagði í samtali við Morgunblaðið að þau hefðu fregnað það fyrir tilviljun á miðvikudegi fyrir hátíðina að veginum til þeirra og fleiri bæja og ferðaþjónustuaðila við vatnið yrði lokað. Þá hefði undirbúningur fyrir meiri umferð og viðskipti þessa helgi staðið yfir.

"Það sem mér fannst verst við þetta var að viðskiptin urðu minni heldur en ef kristnihátíðin hefði ekki farið fram. Við bjuggumst við meiru vegna hennar en okkur fannst sárt að það skyldi fara niður í ekki neitt. Einnig fannst okkur sárt að ekki var talað við neinn. Hefði verið samið um þetta í vor eða síðasta vetur hefðum við getað gert ráð fyrir því fyrirfram," sagði Kolbeinn.

Hann sagði reynsluna sýna að yfir góða helgi í júlímánuði, í veðurblíðu líkt og var á kristnihátíð, færu vel á annað hundrað manns í siglingu með Himbrima um Þingvallavatn. Tekjutap fyrirtækisins væri því augljóst.

Fleiri eru ósáttir

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins íhuga fleiri ferðaþjónustuaðilar í nágrenni Þingvallavatns að leita réttar síns vegna lokunar vega til þeirra á kristnihátíðinni. Forráðamenn þjónustumiðstöðvarinnar á Þingvöllum og Nesbúðar á Nesjavöllum sögðust í samtölum við Morgunblaðið vera með sín mál hjá lögfræðingum.