VEIÐIMÁLASTJÓRI segir að dæmi séu um að vopn séu ekki skráð á rétta eigendur, en talið er að rúmlega 50 þúsund skotvopn séu í landinu.

VEIÐIMÁLASTJÓRI segir að dæmi séu um að vopn séu ekki skráð á rétta eigendur, en talið er að rúmlega 50 þúsund skotvopn séu í landinu. Áki Ármann Jónsson veiðistjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir þessu væri sú að illa væri fylgst með skotvopnaviðskiptum á milli manna. Árni Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóraembættinu, segir að um næstu áramót verði tilbúin miðlæg skotvopnaskrá sem taki við af dreifðum skotvopnaskrám um allt land sem hafa verið jafnmargar og lögregluembættin á landinu.

Áki Ármann sagði að þegar skotvopn væru keypt í verslun væru þau skráð á kaupandann og að ríkislögreglustjóri fengi þær upplýsingar til sín. Hann sagði að eftir þetta væri hinsvegar lítið fylgst með skotvopnunum og að menn ættu hægt um vik með að kaupa og selja skotvopn án þess að skrá þau eins og lög gerðu ráð fyrir.

Áki Ármann sagði að því væri líklegt að í umferð væri fjöldi skotvopna sem ekki væru skráð á rétta eigendur og því erfitt eða ómögulegt að finna þau eða eigendur þeirra. Hann sagði að þetta gæti haft afdrifaríkar afleiðingar sérstaklega ef viðkomandi vopn væri notað ólöglega, t.d. í tengslum við afbrot.

Að sögn Áka Ármanns er skráin yfir skotvopnaleyfishafa einnig í ólestri, en ríkislögreglustjóraembættið sér um hana. Hann sagði að árið 1995 þegar veiðistjóraembættið hefði útdeilt veiðikortum hefði það þurft á skotvopnaleyfisskránni að halda og að þá hefði komið í ljós að fjöldi manna sem fengið hafði skotvopnaleyfi var hvergi skrá. Hann sagðist vita til þess að verið væri að vinna að því að bæta þessi mál í dag, en hann sagðist ekki vita hvernig þeirri vinnu miðaði.

Miðlæg skotvopnaskrá

Árni Albertsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að fram að þessu ári hafi verið til 27 skotvopnaskrár dreifðar um landið, jafnmargar og lögregluembættin. Fyrir tæpum tveimur árum hafi hafist undirbúningur að því á vegum Ríkislögreglu stjóra að búa til nýja miðlæga skotvopnaskrá og tölvuforrit í kringum hana. "Greiningunni lauk seint á síðasta ári og um mitt þetta ár var skotvopnaskráin tekin í notkun og öllum embættum gert skylt að vera búin að skrá inn öll vopn sem skráð væru í þeirra embættum inn í þessa miðlægu skotvopnaskrá fyrir 1. janúar 2001. Þá verður orðin til ein miðlæg skotvopnaskrá. Þetta er afar fullkomin skrá þar sem haldið er utan um hvert smáatriði í sambandi við skráningu á skotvopnum," segir Árni.

Þetta séu því að verða gamlar upplýsingar sem veiðimálastjóri beri á borð. Erfitt sé að segja til um hvort skotvopn séu skráð á ranga eigendur. "Það er ekki hægt að fullyrða hvort einhver úti í embættunum hafi ekki skráð skotvopn á rangan aðila. Auðvitað á það ekki að gerast og ég þori að fullyrða að í 99,9% tilvika séu skotvopn skráð á rétta aðila," segir Árni.