Úlfur Árnason, prófessor í sameindaþróunarfræði við háskólann í Lundi. Myndin er tekin í anddyri Royal Society í London.
Úlfur Árnason, prófessor í sameindaþróunarfræði við háskólann í Lundi. Myndin er tekin í anddyri Royal Society í London.
Hinar mörgu birtingarmyndir tímans voru viðfangsefnið á Þúsaldarráðstefnu Royal Society, þar sem Sigrún Davíðsdóttir hlustaði meðal annars á Úlf Árnason prófessor rekja niðurstöður sínar um aldur mannsins.

GETUR maður fætt sjálfan sig? Þetta var ein hinna fjölmörgu og flóknu spurninga, sem velt var upp á Þúsaldarráðstefnu Royal Society, Breska vísindafélagsins, í London fyrir helgi. Með þessar vangaveltur á sveimi batt Roger Short, prófessor í læknisfræði við háskólann í Melbourne og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar, enda á tveggja daga ráðstefnu um tímann og mælingar á tímanum.

Short hikaði reyndar ekki við að lýsa yfir sigri tímans eða svo kallaði hann lokaþanka sína. Eins og ofangreind spurning ber með sér brá Short upp svo sterkum myndum af þversögnum tímans að óhætt er að segja að ráðstefnugestir hafi reikað út með aðkenningu af svima.

Tíminn er fleira en ferli á klukku. Tímaferli náttúrunnar teygir sig frá bakteríum upp í gegnum lífríki plantna og dýra. Og við nánari athugun kemur í ljós að það er sólarhringsbundið, tunglbundið, árs- og árstíðabundið.

Í hópi margra þekktra fyrirlesara á ýmsum sviðum líf- og náttúruvísinda var Úlfur Árnason, prófessor í sameindaþróunarfræði við háskólann í Lundi. Af öðrum má efna konunglegan stjörnufræðing, Sir Martin Rees, við Institute of Astronomy í Cambridge og Paul Davies, prófessor í eðlisfræði við Imperial College í London, en auk vísindarita hafa þeir báðir skrifað metsölubækur um sín svið fyrir almenning.

Virðuleiki hins gamalgróna Breska vísindafélags, Royal Society, blasti strax við ráðstefnugestum er borðalagðir herramenn tóku á móti þátttakendum. Í svo gamalgrónu háskólaumhverfi, sem finna má í Bretlandi er erfitt að lýsa því hve mikillar virðingar þessi félagsskapur nýtur. En hann er ekki aðeins fyrir sérfræðinga. Vísindafélagið leggur metnað sinn í að halda fyrirlestra og ráðstefnur fyrir almenning jafnt sem sérfræðinga og því var Þúsaldarráðstefnan öllum opin.

Erum líklega um 230 þúsund árum eldri en við höldum

Fyrirlestur Úlfs Árnasonar var einn af sautján fyrirlestrum á ráðstefnunni. Úlfur og samstarfsmenn hans hafa undanfarin ár endurtímasett aðskilnað ýmissa dýrategunda og um leið komið með nýjar kenningar um aldur mannsins. Í stað þess að maðurinn sem dýrategund sé 170 þúsund ára gamall álíta Úlfur og samstarfsmenn hans að nærri lagi sé að álíta manninn 300 þúsund ára.

Kenningar Úlfs hafa gengið þvert á margar viðteknar kenningar í sameindaþróunarfræði. Þó vísindamenn hafi sannleikann að leiðarljósi er ekki alltaf jafnauðvelt að koma nýjum kenningum á flot og það hafa Úlfur og samstarfsmenn hans margoft mátt reyna. Boðið til Úlfs um að halda fyrirlestur á jafnvirðulegum vettvangi og Þúsaldarráðstefnan er sýnir að kenningar hans njóta vaxandi hljómgrunns, enda eru þær að sögn sérfræðinga vel rökfærðar og koma þar að auki heim og saman við aðrar vísbendingar eins og steingervinga.

Tímaferðir og melatónín

Það voru bæði eðlisfræðingar, læknar og líffræðingar, sem veltu fyrir sér birtingarmyndum tímans þá tvo daga sem Þúsaldarráðstefnan stóð. Paul Davies velti fyrir sér tímaferðum og möguleikum þeirra. Niðurstaðan var að út frá forsendum eðlisfræðinnar væru þær ekki óhugsandi, en vísast fremur dýrar í framkvæmd.

Fyrir óinnvígða áhugamenn eru þessar hugmyndir býsna stórar í sniðum, en hvort afkomendur okkar eiga í framtíðinni eftir að freista slíkra ferðalaga mun tíminn leiða í ljós. En eins og Davies benti á með bros á vör þá væri ein leiðin til fjármögnunar auðvitað sú að snúa aftur til 1987 eða svo, þegar verðbréfamarkaðir heimsins tóku djúpa dýfu, kaupa bréfin, sem við vitum að áttu eftir að hækka og nota svo afraksturinn til að fjármagna tímaferðirnar.

Áþreifanlegri niðurstöður komu fram í fyrirlestri Gerald Lincoln, við MRC Centre for Reproductive Biology í Edinborg, er fjallaði um áhrif melatóníns í spendýrum, þar með töldum manninum. Melatónín hefur dregið að sér vaxandi athygli undanfarin ár. Efnið hefur áhrif á svefn og hefur því verið haldið á lofti sem náttúrulegu svefnlyfi, til dæmis sem lækningu á tímavillu, er margir finna fyrir á langferðum, sem liggja yfir mörg tímasvæði.

Lincoln benti hins vegar á að þó melatónín hefði vissulega þessi áhrif þá væru áhrif þess greinilega mjög víðtæk og því spurning hvort ekki væri verið að fitla við býsna margslungna líkamsstarfsemi með því að taka melatónín til að aðlaga líkamann að áhrifum langferða. En hvort slíkar viðvaranir vísindamannsins ná fram er annað mál. Melatónín er núorðið til sölu lyfseðlalaust víða um heim sem náttúrulyf og eftirspurnin er gríðarleg, enda hafa spunnist margs konar kenningar um ágæti þess, meðal annars í baráttu gegn þeim illskeyttu áhrifum tímans, ellinni.

Sigrast á tímanum: Að fæða sjálfan sig

Roger Short fór í lokin í huganum með ráðstefnugesti íheimsókn í garð hins sænska Carl von Linné (1707-1778) er á sínum tíma lagði grunninn að flokkunarkerfi jurta. Linné kom sér upp sérkennilegri blómaklukku. Hann hafði plantað blómum sem nokkurs konar úrskífu, eftir því hvenær dagsins þau opnast og hvenær þau loka sér. Með því að tengja saman dagstakt blómanna og tíma klukkunnar fléttaði Linné saman tíma náttúrunnar.

Þessum hugleiðingum Linnés er ekki erfitt að fylgja, en það er öllu flóknara að fylgja eftir þeim hugleiðingum að einstaklingur geti fætt sjálfan sig. Þá er hugmyndin sú að tekin sé fruma, henni skipt í tvennt, annar helmingurinn frystur og hinn helmingurinn látinn mynda einstakling. Þegar sá einstaklingur er orðinn fullvaxta er hinum helmingnum komið fyrir í honum og hann látinn fæða sjálfan sig - og þá væntanlega aftur eða hvað?