HÆKKANDI sjávarhiti í Barentshafi leiðir líklega til þess að þorskurinn gengur lengra í austurátt en áður og inn í landhelgi Rússa. Jafnframt þýðir hækkandi sjávarhiti betri lífsskilyrði fyrir fiskinn.

HÆKKANDI sjávarhiti í Barentshafi leiðir líklega til þess að þorskurinn gengur lengra í austurátt en áður og inn í landhelgi Rússa. Jafnframt þýðir hækkandi sjávarhiti betri lífsskilyrði fyrir fiskinn.

Á síðasta áratug og á þessu ári hefur sjávarhiti í Barentshafi að jafnaði verið hálfri gráðu hærri en langtímameðaltal, að sögn Haralds Loeng haffræðings sem sér um rannsóknir á lífskilyrðum í Barentshafi. Sjórinn var hlýjastur í upphafi síðasta áratugar, en kólnaði síðan lítillega, en hefur svo hækkað á ný. Venjulegur gangur mála hefur verið hlýindaskeið í fjögur til fimm ár, en næst á eftir komu jafnmörg ár með miklum sjávarkulda, en nú hefur ekkert kuldaskeið verið síðan í lok níunda áratugarins.

Loeng vill ekki taka svo djúpt í árinni að um veðurfarsbreytingar sé að ræða. Það sé of fljótt að segja til um hvort hlýindin séu varanleg eða ekki. Hann telur þó að ýmislegt bendi til þess að breytingar séu í aðsigi. Það er ljóst að sjávarhitinn í Barentshafi fer hækkandi og það hefur ákveðin áhrif á útbreiðslu þorsksins. Þegar kalt er í Barentshafi gengur þorskurinn til vesturs. Á hinn bóginn gengur hann austur, þegar hlýnar, inn í rússnesku lögsöguna í auknum mæli. Eftir að þorskseiðin hafa klakizt út við Lófóten berast þau með hafstraumum lengst austur í Barentshafið. Þegar þau taka að dafna ganga þau svo til vesturs á ný.

Aukið fæðuframboð

"Að þorskurinn breiðist lengra út til austurs, þýðir einfaldlega að útbreiðslusvæði hans verður stærra og samkeppnin um fæðu verður ekki eins mikil. Hlýnandi sjór þýðir einnig aukið fæðuframboð fyrir þorskinn og því betri nýliðun," segir Loeng.

Hærri sjávarhiti hefur því áhrif á vægi milli tegunda og nýliðun. Það er líka samspil milli helztu fiskistofnanna, þorsks, síldar og ýsu. Ef nýliðun er góð hjá einni tegundinni er hún það líka hjá hinum tveimur.

Er þá hækkandi sjávarhiti til góðs?

"Hækkandi sjávarhiti í Barentshafi og Noregshafi er jákvæður, en svo er ekki endilega sunnar. Hitinn í Norðursjó hefur hækkað minna en í Barentshafi, en með hækkandi sjávarhita þar getur komið til þess að einhverjar tegundir hverfi og verðminni tegundir komi í þeirra stað að sunnan," segir Loeng.