[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Friðriksson, nýja skip Hafrannsóknastofnunar, kom til Reykjavíkur á mánudag eftir mælingar á hafsbotninum á tveimur svæðum suður af landinu en samtals var mælt á um 4.000 ferkílómetra svæði. Við mælingarnar var fjölgeislamælir notaður í fyrsta sinn og kom ýmislegt í ljós sem ekki var vitað um áður, eins og Steinþór Guðbjartsson fékk að heyra hjá Guðrúnu Helgadóttur og Haraldi Sigurðssyni.

GUÐRÚN Helgadóttir, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, var leiðangursstjóri í ferðinni, sem tók sex daga en reyndar stóðu mælingar aðeins yfir í fjóra daga. Hún segir að opnast hafi nýr heimur á hafsbotni. "Við sáum landslag í Háfadjúpi sem ekki var vitað um, gil og dali, fjöll og fleira, þar sem áður hafði verið dregin ein dýptarlína. Litlar upplýsingar voru til um þetta svæði en nú liggja þær fyrir."

Mælingarnar áttu sér stað á tveimur svæðum. Fyrst var mælt á Kötluhryggjum sunnan við Kötlutanga, syðsta odda Íslands. Þar hófust mælingar við Reynisdjúp um það bil 20 km frá landi og þaðan var Mýrdalsjökulgljúfri fylgt eftir í um 100 km í suður, en gljúfrið liggur niður á allt að 2.000 m dýpi. Síðan var mælt í Háfadjúpi austan við Vestmannaeyjar, en þar var svæðið skoðað frá kantinum niður á um 1.400 m dýpi.

"Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst að prófa þennan nýja fjölgeislamæli," segir Guðrún. "Hann hefur aldrei verið notaður hér enda ekki verið í íslensku rannsóknaskipi fyrr."

Þessi fjölgeislamælir er fastur við botn skipsins en auk þess að sýna botnlagið og hafsbotninn í þrívídd mælir hann einnig botnhörkuna, það er hvort botninn er mjúkur eða harður, hvort þar er möl eða sandur. "Hann getur tekið einskonar botnhörkumynd og með ýmsum öflugum forritum má gera botngerðarkort."

Guðrún segir að öll þessi vitneskja sé mjög mikilvæg. Straumar haga sér oft eftir botnlöguninni og allt nýtist þetta fiskimönnum við veiðar. "Þessar upplýsingar varpa ljósi á ótal hluti," segir hún, "og eiga eftir að valda byltingu í kortlagningu hafsbotnsins umhverfis Ísland og könnun nýrra veiðisvæða í framtíðinni."

Eðjustraumur og landmótun

Í vinnuhópnum hjá Hafrannsóknastofnuninni eru auk Guðrúnar Jóhannes Briem, sem sér um straummælingar, Héðinn Valdimarsson, hafeðlisfræðingur, og Páll Reynisson, bergmálsverkfræðingur. Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur og prófessor við Hafrannsóknastofnun Rhode Island háskóla í Bandaríkjunum undanfarin 25 ár, var einnig með í för. Hann hefur mikið rannsakað eldfjöll neðansjávar og var á svæðinu í tengslum við jökulhlaupið úr Grímsvötnum haustið 1996. Þá fór hann þangað með rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni til að fylgjast með straumnum í sjónum og hvernig efnið dreifðist. "Ég tók þátt í leiðangrinum vegna þess að ég hef unnið á þessu svæði fyrir sunnan land og hef mikinn áhuga á botnkönnunum þar í sambandi við það sem berst út í hafið frá jökulhlaupum," segir Haraldur. "Hlaupið fer yfir sandana og svo út í sjó. Það ber mikinn eðjustraum með sér út í hafið. Hann fer út á landgrunnsbrúnina og svo rennur hann niður gljúfur, niður á 2.000 metra dýpi, þar sem hann dreifist út yfir flatan hafsbotninn. Eðjustraumurinn hefur mjög mikil áhrif á landmótunina og orsakar sennilega þessi miklu gljúfur sem eru í landgrunnsbrúninni. Þau skera sig inn í brúnina og ná langt suður í haf."

Mikilvægt fyrir fiskimennina

Áður óþekkt svæði fundust og segir Haraldur þetta hafa verið stórkostlega upplifun. "Þetta er ný uppgötvun. Fjöll, hæðir og dalir, farvegir. Það er stórkostlegt að sjá þetta - þetta er eins og svipt sé frá blæju. Landslagið í Háfadjúpi er stórkostlegt og það höfðum við ekki hugmynd um. Þetta er eins og að fara í nýtt land, íslenskt land, og það þarf að sinna því. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fiskimennina, því þeir eru oft með botnvörpuna og fiskurinn er nálægt botninum. Þess vegna þurfa þeir að fá nákvæmar upplýsingar um landslagið."

Kortlagning grunnsins

Haraldur segir að gögnin, sem hafi verið safnað í leiðangrinum, séu mjög gagnleg til að kanna þessa myndun frekar. Þegar séu komin kort sem nái yfir ámóta stórt svæði og Reykjanesskagann sem sýni að fljótlegt sé að safna gögnunum saman en lengri tíma taki að vinna úr þeim. Tækið sé algjör bylting og ekki sé séð fyrir endann á gildi þess fyrir vísindin og útgerðina. "Ég hef mikinn áhuga á jarðmyndunum á þessu svæði og hef unnið með svipuð tæki en stefni að því að taka skipið síðar á leigu ef hægt er og vinna frekar með Hafrannsóknastofnun að framhaldsverkefni á þessu svæði, landgrunninu öllu og helst allri landhelginni, því það er mikið metnaðarmál fyrir Íslendinga að kortleggja vel landgrunn sitt og landhelgi. Það getur orðið gjörbylting að þessu leyti og Ísland getur orðið ein fyrsta þjóðin til að kortleggja nákvæmlega sína lögsögu. Það hefur mikla þýðingu fyrir útveginn, útgerðina, og jarðfræðina. Það fyrsta sem þarf að gera á svona svæði er að fá nákvæmt kort áður en aðrar frekari rannsóknir geta farið fram."