DAGUR stærðfræðinnar er í dag en hann er haldinn í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar. Flötur, félag stærðfræðikennara, hefur m.a.

DAGUR stærðfræðinnar er í dag en hann er haldinn í tilefni af alþjóðlegu ári stærðfræðinnar. Flötur, félag stærðfræðikennara, hefur m.a. undirbúið daginn með því að senda verkleg rúmfræðiverkefni til grunnskóla og hvetja framhaldsskólakennara til þess að standa fyrir stærðfræðiþrautum í tilefni dagsins.

Í Menntaskólanum í Kópavogi var komið fyrir Toyota Yaris bifreið á mánudaginn sem hafði verið fyllt af fótboltum. Nemendur í skólanum fengu það verkefni að reikna út fjölda fótbolta inni í bílnum. Jón Eggert Bragason stærðfræðikennari segir að nemendur hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga og þrautin hafi verið mikið rædd í skólanum. Í dag kl. 14 verða veitt verðlaun fyrir bestu lausnirnar. Ekki nægir að giska á fjöldann því tekið er mið af bestu aðferðunum við útreikningana.

Klukkan 17 í dag hittast stærðfræðikennarar á fundi í hátíðarsal Háskólans sem hefur yfirskriftina: Stærðfræðikennsla á villigötum? Frummælendur á fundinum verða Anna Kristjánsdóttir prófessor í Kennaraháskóla Íslands, Ellert Ólafsson framkvæmdastjóri Tölvu- og stærðfræðiþjónustunnar og Lárus H. Bjarnason rektor MH.