Knopfler með Dire Straits: "Risasviðin og ljósabúnaðurinn fóru alltaf svolítið í taugarnar á mér."
Knopfler með Dire Straits: "Risasviðin og ljósabúnaðurinn fóru alltaf svolítið í taugarnar á mér."
DÆGURTÓNLIST samtímans býður gítarhetjum upp á takmarkað gistirými um þessar mundir.

DÆGURTÓNLIST samtímans býður gítarhetjum upp á takmarkað gistirými um þessar mundir. Í dag þykir mun svalara að geta farið liprum höndum um lyklaborð en fimum fingrum um gítarháls og í fljótu bragði man þessi ósýnilegi penni aðeins eftir tveimur gítarhetjum sem fram komu á níunda áratugnum, hinu silkimjúka gítargoði úr Dire Straits, Mark Knopfler, og andgítarhetjunni Edge úr U2. Ég man hins vegar ekki eftir einu einasta frá þeim tíunda.

Af þeim tveimur sem nefndir hafa verið hefur sá síðarnefndi hallað sér í ríkari mæli að tilraunum með tölvutól og möguleikum þeirra í tónlistarsköpun, orðið æ sinnulausari gagnvart sex strengja boxinu, á meðan Knopfler hefur hins vegar haldið tryggð við gítarinn. Á dögunum gaf hann út nýja einleiksskífu sem kallast Sailing to Philadelphia og var af því tilefni inntur álits á henni og því sem á daga hans hefur drifið síðan sú síðasta kom út.

30 ára vinnsluferli?

Að sögn Knopflers eiga lögin á nýju plötunni sér mismunandi langa sögu, það er ekki svo að þau hafi verið samin í einum ryk. "Til dæmis hófst ég handa við lagið, "One More Matineé", fyrir um þrjátíu árum á meðan ég var enn barn að aldri!" segir hann.

Það er fimm manna hópur sem fylgir Knopfler á plötunni nýju, en hann spilaði einnig með honum á síðustu einleiksskífu, Golden Heart, sem kom út árið 1996, ásamt því að fylgja honum í tónleikaferð sem farin var í kjölfar þeirrar plötu. "Þegar ég var að spila á hljómleikaferðalaginu til að fylgja On Every Street eftir (síðasta plata Dire Straits, 1991) þurftum við að flytja með okkur risasvið og ljósabúnað og mér var farið að leiðast það þóf sárlega. Mér hefur alltaf fundist svolítið annkannalegt að spila á risaleikvöngum og sá að ef ég ætlaði að bæta mig sem tónlistarmaður yrði ég að fara að skipta um vinnuumhverfi."

Kvikmyndatónlist

Eftir að Dire Straits lagði upp laupana hefur Knopfler samið kvikmyndatónlist af mikilli elju og hann á tónlist við myndir eins og The Princess Bride, Last Exit to Brooklyn, Cal og Local Hero.

"Eftir Golden Heart kom smávegis stund á milli stríða og ég notaði hana til að sinna nokkrum kvikmyndatengdum verkefnum og samdi tónlist við Metroland, Wag the Dog og A Shot at Glory, frábæra mynd eftir Robert Duvall með Michael Keaton í aðalhlutverki."

Hann segir vinnu við plötuna hafa tekið dágóðan tíma, þó ekki með tilliti til hljóðversvinnunnar sem slíkrar. "Aðalmálið fólst í því að púsla plötunni saman. Þetta eru svo hagvanir spilarar sem eru að vinna þetta með mér að sjálfar upptökurnar gengu hratt og vel fyrir sig. Á tímabili var ég að pæla í að gera tvöfalda plötu en hætti við."

Bannað að sóa hæfileikunum

Platan nýja er nokkuð stjörnum prýdd á stundum; Emmylou Harris, James Taylor og Van Morrisson koma öll við sögu á einn eða annan hátt.

"Samstarfið við Emmy gekk það vel að mig langar til að vinna plötu með henni einni einhvern tíma í framtíðinni. Sömuleiðis var frábært að vinna með Van Morrison og við tveir höfum í gegnum árin talað um að gera blúsplötu saman. Van hafði mikil áhrif á mig sem ungan mann og mér hefur fundist mikill heiður að fá tækifæri til að vinna með honum. Hugarfar aðdáandans fer aldrei langt frá mér í tilfelli Morrisons og mér fannst stórkostlegt að heyra hann syngja lag sem ég hafði samið."

Knopfler er ekki mikill reglugerðarriddari hvað varðar vinnuna. "Ég vinn bara heima við og byrja bara einhvern tíma og hætti þegar mig er farið að langa í kaffi eða eitthvað slíkt. Ég set mér ekki strangar reglur og stundum nær letipúkinn að setjast að í mér. Þá reynir maður að finna sér einhverja afsökun fyrir því að skella sér á mótorhjólið eða hvað það er nú sem maður gerir til að drepa tímann. Ég hef nú samt reynt að sýna ögn meiri ábyrgð varðandi lagasmíðarnar...ég meina, það er það sem ég á að gera og ekki vil ég fyrir nokkurn mun vanvirða þá hæfileika sem ég bý yfir.

Slíkt væri að sjálfsögðu synd og skömm."