Lionel Jospin, forsætisráðherra Frakklands, svaraði spurningum fréttamanna er hann var að fara á skyndifund í ríkisstjórninni um hneykslismálið í fyrradag.
Lionel Jospin, forsætisráðherra Frakklands, svaraði spurningum fréttamanna er hann var að fara á skyndifund í ríkisstjórninni um hneykslismálið í fyrradag.
DOMINIQUE Strauss-Kahn, fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, neitaði í gær, að hann hefði tekið við myndbandsspólu með spillingarásökunum á Jacques Chirac, forseta landsins, sem umbun fyrir að taka vægilega á skattamálum tískuhönnuðarins Karls...

DOMINIQUE Strauss-Kahn, fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, neitaði í gær, að hann hefði tekið við myndbandsspólu með spillingarásökunum á Jacques Chirac, forseta landsins, sem umbun fyrir að taka vægilega á skattamálum tískuhönnuðarins Karls Lagerfelds. Heldur hann því enn fram, að hann hafi aldrei skoðað spóluna og sé búinn að týna henni. Hneykslið, sem snýst um ólöglega fjármögnun stjórnmálaflokka, hefur valdið mikilli úlfúð milli Chiracs forseta annars vegar og ríkisstjórnar Lionels Jospins hins vegar og telja fréttaskýrendur, að það geti haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samstarfið milli þeirra.

"Þetta er mesta siðferðilega kreppa og hneyksli, sem komið hefur upp í sögu Fimmta lýðveldisins," sagði hið vinstrisinnaða dagblað Liberation í gær og fréttaskýrendur sögðu, að hneykslið gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir yfirstjórn ríkisins en í Frakklandi eru forseti og ríkisstjórn um þessar mundir fulltrúar andstæðra stjórnmálaafla. Þá segja þeir, að málið geti orðið Frökkum til skammar á alþjóðavettvangi og staðfest þá almennu skoðun innanlands sem utan, að hin pólitíska yfirstétt í Frakklandi, hvaðan sem hún kemur, sé í litlum tengslum við líf venjulegs fólks. Frakkar fara nú með forystuna í Evrópusambandinu en fréttaskýrendur segja, að í öðrum Evrópuríkjum hljóti menn að spyrja sig hvort frönskum stjórnvöldum sé treystandi til að beita sér fyrir nauðsynlegum umbótum innan ESB á sama tíma og allt sé upp í loft hjá þeim.

Hneykslið kom upp í síðustu viku er dagblaðið Le Monde birti útdrátt úr því, sem fram kemur á spólunni eða afriti af henni. Þar segir Jean-Claude Mery, sem nú er látinn en var á þessum tíma, 1966, frammámaður í flokki Chiracs, að hann hafi tekið við miklu fé frá byggingarfyrirtækjum á níunda áratugnum gegn því, að þau fengju verksamninga í París en þá var Chirac borgarstjóri þar. Segir hann, að Chirac hafi átt beinan þátt í þessu og setið fund þar sem hann, Mery, hafi afhent um 57 millj. ísl. kr. frá byggingarfyrirtækjunum.

Þessu neitar Chirac og stuðningsmenn hans telja hugsanlegt, að um sé að ræða samsæri og ófrægingarherferð gegn honum með tilliti til næstu kosninga.

Önnur sprengja í þessu máli féll svo sl. sunnudag er tímaritið L'Express sagði á heimasíðu sinni, að það hefði komist yfir yfirlýsingar, sem lykilvitni í málinu, skattalögfræðingurinn Alain Belot, hefði gefið fyrir dómara. Sagði tímaritið, að Belot hefði séð um upptökuna á játningum Merys 1966 og tjáð dómaranum, að hann hefði látið Strauss-Kahn fá spóluna gegn því, að hann greiddi fyrir Lagerfeld vegna gífurlegra skattaskulda hans. Hann hefði skuldað rúmlega þrjá milljarða ísl. kr. en skattayfirvöld látið hann sleppa með 550 milljónir kr.

Strauss-Kahn neitar þessu harðlega og segir, að engin tengsl séu á milli spólunnar og niðurstöðunnar í skattamálum Lagerfelds. Hann hafi vissulega tekið við spólunni en aldrei skoðað hana þótt mörgum kunni að finnast það ótrúlegt. Nú sé hann búinn að týna henni.

Leitað hjá Strauss-Kahn

Lögreglan leitaði spólunnar á skrifstofum Strauss-Kahns í fyrrakvöld en ekki var ljóst hvort eitthvað kom út úr því. Vill hún komast yfir frumeintakið til að kanna hvort því ber saman við afritin, sem nú eru í umferð. Strauss-Kahn sagði af sér sem fjármálaráðherra í nóvember sl. vegna annars hneykslismáls.

Jospin forsætisráðherra reyndi að losa sig og ríkisstjórnina út úr þessu hneyksli í fyrrakvöld er hann lýsti yfir, að honum kæmi umrædd spóla ekkert við. Vegna aðildar Strauss-Kahn að málinu bæri honum að gefa þær upplýsingar, sem um væri beðið. Frammámenn í flokki Chiracs segjast hneykslaðir á þessum yfirlýsingum Jospins og segja útilokað, að hann hafi ekkert um málið vitað.

Le Monde sagði í gær, að lögreglan hefði fundið í bankahólfi tvö bréf frá Mery til Chiracs. Hafi þau verið skrifuð 1995 og 1996 og í þeim kvarti Mery yfir því, að "loforð", sem honum hafi verið gefin fyrir að þegja, hafi ekki verið efnd.

París. AFP, Reuters.