Jón Helgason
Jón Helgason
Skynsamlegt gæti verið, segir Jón Helgason, að gera Vatnajökul og aðliggjandi svæði að þjóðgarði sem gæti orðið stærsti og fjölbreyttasti þjóðgarður Evrópu.

Hugmyndin um þjóðgarð varð fyrst að veruleika árið 1872 með stofnun Yellowstone-þjóðgarðsins í Bandaríkjunum. Markmiðið var að afmarka landsvæði til verndunar; takmarka inngrip manna og leyfa viðkomandi svæði að þróast sem allra mest á náttúrulegum forsendum. Þetta var hugmynd sem gekk upp og þjónaði samfélaginu á mikilvægan hátt og er fyrirmynd þeirra liðlega 2.000 þjóðgarða sem í dag finnast í a.m.k. 130 ríkjum.

Það er ekki til einhlítt svar við því hvað gerir landsvæði þess virði að gera það að þjóðgarði. Landsvæðið þarf að vera stórbrotið eða einstakt á einhvern hátt. Það þarf að búa yfir verðmætri náttúru eða vera á einhvern hátt eftirsóknarvert til skoðunar. Það þarf að verulegu leyti að vera mótað af náttúrunnar hendi en minna af mannvöldum. Það þarf að vera hægt að vernda það með skilvirkum hætti en jafnframt unnt að nýta það til útivistar og vísindarannsókna án þess að það skaðist.

Reynsla Íslendinga af þjóðgörðunum þremur á Þingvöllum, í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum er afar góð. Þessi staðir geyma perlur úr íslenskri náttúru og eru jafnframt eftirsóttir áningastaðir og unaðsreitir sem styrkja aðliggjandi byggðir. Nú hillir undir nýjan þjóðgarð á Snæfellsnesi sem ef-
laust mun verða bæði náttúruvernd og útivist til góðs.

Það eru fjölmargir staðir á Íslandi sem vel gætu staðið undir nafngiftinni þjóðgarður. Vatnajökull og aðliggjandi svæði eru þar fremst í flokki. Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu og í iðrum hans er eitt virkasta eldfjallasvæði heims. Hann er einstakur og stórbrotinn. Allt um kring er landslag stórt í sniðum og fjölbreytt og mótað af því mikla afli sem í jöklinum býr.

Að undaförnu hafa komið fram hugmyndir um að skynsamlegt gæti verið að gera Vatnajökul og aðliggjandi svæði að þjóðgarði sem gæti orðið stærsti og fjölbreyttasti þjóðgarður Evrópu. Snemma árs 1999 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um Vatnajökulsþjóðgarð og síðan hefur umhverfisráðuneytið haft málið til meðferðar. Síðar á árinu 1999 varð það niðurstaða aðalfundar Landverndar að nauðsynlegt væri að fjalla ítarlega um hugmyndirnar um Vatnajökulsþjóðgarð. Það er í samræmi við störf og stefnu Landverndar að í umhverfismálum sé fræðsla, þekking og gagnkvæmur skilningur grundvöllur þess að ná megi skynsamlegri og farsælli niðurstöðu.

Í kjölfarið hafa samtökin, í samstarfi við fjölmarga aðila, undirbúið efnismikla ráðstefnu sem haldin verður á Kirkjubæjarklaustri 29. september nk. Á ráðstefnunni mun vinnuhópur undir stjórn Ingu Rósu Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands, kynna hugmyndir um mörk og skipulag hugsanlegs Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrirlesarar frá Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Norges Naturvernforbund munu skoða hugmyndina um Vatnajökulsþjóðgarð frá alþjóðlegu sjónarhorni. Fulltrúar orkufyrirtækja, bænda, ferðaþjónustunnar, Náttúruverndar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, vísindamanna og sveitarfélaga munu fjalla um þá fjölmörgu hagsmuni sem tengjast landnýtingaráformum af þessu tagi. Þá verður fjallað um siðfræðilegt og menningarlegt gildi þjóðgarða og umhverfisráðherra mun draga upp þá framtíðarsýn sem stjórnvöld hafa í þessu máli.

Ég hvet alla þá sem telja sig hafa eitthvað til þessara mála að leggja, að taka þátt í ráðstefnunni. Frekari upplýsingar um hana er að finna á heimasíðu Landverndar (www.landvernd.is)

Höfundur er formaður Landverndar.