Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
Hefur ekki alltaf orðið djöfulgangur, spyr Einar K. Guðfinnsson, þegar áform hafa verið um að hið opinbera léti framkvæma viðfangsefni sín utan póstnúmera höfuðborgarsvæðisins?

ALÞINGI ályktaði hinn 3. mars árið 1999, að "opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu". Þetta er afar skýrt markmið, sem felur í sér gjörbreytingu frá ríkjandi ástandi. Þess var því að vænta að átök hæfust þegar farið yrði að hrinda þessari stefnumótun í framkvæmd. Sú hefur og orðið raunin.

Tilefni þessarar ályktunar er meðal annars athugun sem Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur vann að ósk stjórnar Byggðastofnunar. Sú rannsókn leiddi meðal annars í ljós að hlutfall stöðugilda er lægra en hlutfall af íbúatölu í öllum kjördæmum nema Reykjavík. Það er ljóst að atvinnustefna hins opinbera og ákvarðanir um hvar starfsemi þess fer fram ræður miklu um búsetuþróun í landinu. Stöðugildi hjá ríkissjóði og fyrirtækjum í meirihlutaeign ríkisins samkvæmt rannsókn Haraldar voru tæplega 24 þúsund. Þar af tæp tvö af hverjum þremur í höfuðborginni. Staðsetning opinberra starfa hefur því bersýnilega haft sitt að segja um búseturöskunina á síðustu árum og áratugum.

Við vitum að oftar en ekki hefur það gerst sem af gömlum vana að starfsemi ríkisins er sett niður á höfuðborgarsvæðinu. Fjarskiptabylting nútímans og framfarir í samgöngum hafa þar litlu um breytt, því miður.

Ný opinber störf á landsbyggðinni?

Nú segja menn mjög að best sé að staðsetja ný verkefni hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta lögðum við Tómas Ingi Olrich raunar til í þingsályktunartillögu sem við lögðum fram á Alþingi 15. nóvember árið 1996. Þessi hugsun rataði svo inn í byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust og gildir fyrir árin 1999-2001.

Illa hefur hins vegar gengið að framkvæma þessa hugmyndafræði. Ekki það að opinber störf hafi ekki fæðst. Ekkert hefur skort á það. Þessum störfum hefur hins vegar undantekningarlítið verið ætlaður staður á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að um ný verkefni hafi verið að ræða. Menn hafa einfaldlega komið sér upp enn einni afsökuninni fyrir því að sniðganga samþykkt Alþingis, með því að segja að nýju störfin eigi sér forsögu á höfuðborgarsvæðinu, séu unnin innan eða í tengslum við stofnanir sem þar eru og þar fram eftir götunum. Sú leið sem Morgunblaðið bendir á í leiðara sínum og við Tómas Ingi lögðum til í þingsályktunartillögu okkar hefur ekki dugað af þeim sökum, því miður.

Eilífðarvélin

Skemmst er líka að minnast þess að á þessu sumri var tveimur nýjum stofnunum valinn staður í Reykjavík, Persónuverndinni og Lyfjastofnun. Báðar þessar stofnanir voru þó í eðli sínu nýjar. Þeim var meðal annars ætlað hlutverk sem ekki hafði verið sinnt áður, auk þess að sjálfsögðu að sinna um verkefni sem aðrar stofnanir (sem auðvitað áttu heimilisfesti syðra) höfðu áður haft með höndum. Staðsetning þessara stofnana utan landsbyggðarinnar var núna m.a. réttlætt með því að ekki mætti slíta rótfasta starfsemi úr þeim jarðvegi sem hún hefði sprottið. Með þessum rökum er hægt að rökstyðja út í hið óendanlega, að ríkisstofnanir séu alltaf og ævinlega á höfuðborgarsvæðinu. Spennandi verður því að sjá hvort verkefni vegna Schengen-samningsins, sem óumdeilanlega eru þó ný, verði unnin innan eða utan landsbyggðarinnar.

Verkefni - ekki stofnanir út á land?

Stundum er líka rætt um að ekki eigi að setja niður stofnanir, heldur skilgreind verkefni ríkisins úti á landi. Með því væri komið í veg fyrir óþarfa röskun og umrót. En þessi röksemd er ekki heldur vatnsheld. Í dag er þessum verkefnum sinnt af starfsmönnum opinberra stofnana. Flestum hverjum á höfuðborgarsvæðinu. Yrðu þau verkefni unnin annars staðar fylgir þeirri ákvörðun vitaskuld röskun fyrir þá starfsmenn sem áður hafa annast þau. Gott dæmi um þetta er þegar stjórn Byggðastofnunar ákvað að verkefni sem þróunarsvið Byggðastofnunar í Reykjavík sá um yrðu unnin af þróunarsviði sömu stofnunar á Sauðárkróki. Það varð uppi fótur og fit. Alveg eins og núna, þegar rætt er um að fela Sparisjóði Bolungarvíkur nokkur verkefni sem nú er sinnt hjá Byggðastofnun. Þannig var það þá, þannig er það nú og þannig verður það.

Fyrirséð viðbrögð

Hér er nefnilega verið að takast á um mikla hagsmuni. Fólkið í byggðunum úti á landi unir því einfaldlega ekki að hafa ekki sömu möguleika til þátttöku í opinberri starfsemi og aðrir landsmenn. Við vitum öll að fjarlægðarrökin, masið um einangrun og fjarlægð, eiga ekki lengur við. Það er því ekki að undra að menn utan höfuðborgarinnar séu að tvíeflast í kröfunni um að "opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu".

Fáránleg, ofsafengin og fordómafull viðbrögð gegn fyrirætlunum um að fela traustri og virtri fjármálastofnun í Bolungarvík nokkur verkefni fyrir eina ríkisstofnun voru á margan hátt fyrirsjáanleg. Hefur ekki alltaf orðið djöfulgangur þegar áform hafa verið um að hið opinbera léti framkvæma viðfangsefni sín utan póstnúmera höfuðborgarsvæðisins? Hafa hinir sjálfskipuðu álitsgjafar á fjölmiðlunum ekki alltaf viðrað fordóma sína þegar menn hafa gert tilraunir til þess að jafna hlut landsbyggðarinnar? Svar: Jú, í hvert einasta skipti. Þess vegna voru viðbrögðin nú fyrirsjáanleg og í stíl við annað. Það er því ekki frekar ástæða til þess að kippa sér upp við þau að þessu sinni en endranær. Sama gamla sagan endurtekur sig nefnilega alltaf þegar að þessum málum kemur.

Þá varð allt vitlaust - auðvitað

Athyglisverð er hins vegar þögn hinna sömu um að fjármálaumsýsla opinberra sjóða fer almennt fram á höfuðborgarsvæðinu, án útboðs. Gamla Húsnæðisstofnunin fól áratugum saman undirstofnun eins viðskiptabankanna innheimtu skulda, sem voru margfaldar að umfangi, miðað við fjármálaumsýslu Byggðastofnunar. Þar var ekki byggt á útboði heldur beinum samningum. Mér er ekki kunnugt um að viðskiptabankasambandið hafi hótað hörðum viðbrögðum vegna þess arna. Þar til að því kom að færa verkefnið út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þá varð allt vitlaust - auðvitað.

Höfundur er alþingismaður og situr í stjórn Byggðastofnunar.