Árni Finnsson
Árni Finnsson
Er Fiskifélagið, með útgáfu bókarinnar, spyr Árni Finnsson, að lýsa sig sammála niðurstöðum Lomborgs?

Fiskifélag Íslands hefur gefið út bók - Hið sanna ástand heimsins - eftir Bjørn Lomborg. Höfundur er lektor í tölfræði við Háskólann í Árósum. Var bók hans upphaflega gefin út í Danmörku árið 1998 að undangenginni mikilli ritdeilu sem fram fór í dönskum blöðum í kjölfar skrifa Lomborgs á síðum dagblaðsins Politiken í ársbyrjun 1998.

Yfirlýstur tilgangur Lomborgs

Lomborg segir tilgang sinn vera ,,... að láta ekki umhverfissamtök og fjölmiðla ein um að miðla sannleikanum og forgangsröðinni{+1} heldur mun frekar að tryggja að beitt sé lýðræðislegum vinnubrögðum við að eygja meginsamhengið í mikilvægustu málaflokkunum.{+ldquo}{+2} Og tilgangurinn helgar meðalið því Lomborg gerir andstæðingum sínum upp skoðanir með því að útlista það sem hann kallar ÁKÆRU umhverfisverndarsinna, sem að hans eigin mati er eftirfarandi: ,,... Ástand umhverfisins er slæmt. Auðlindir jarðar eru að ganga til þurrðar. Jarðarbúum fjölgar sífellt en framboð af matvælum minnkar stöðugt. ...{+ldquo}{+3} Að þessu sögðu tekur Lomborg til óspilltra málanna við að afsanna þessa ÁKÆRU með tölfræðilegum upplýsingum. Hann vill m.ö.o. sýna fram á að ástandið sé í raun harla gott.

Rökvillur Lomborgs

Í þessu felast tvær helstu rökvillur Bjørns Lomborgs. Á ýmsum sviðum umhverfismála hefur vissulega náðst lofsverður árangur. Ekki síst er fyrir að þakka miklum áhuga almennings fyrir bættu umhverfi. Lomborg hefur hins vegar endaskipti á staðreyndum þegar hann fullyrðir að þar eð ýmis umhverfisvandamál, sem við blöstu fyrir 15-20 árum, hafi nú verið leyst sanni það að umhverfisverndarfólk hafi gert sér veður út af litlu tilefni. Þetta er álíka vanhugsað og að segja að umræðan um Eyjabakka hafi verið tilgangslaus því nú ætli Landsvirkjun að vinna mat á umhverfisáhrifum Kárahnúkavirkjunar í samræmi við gildandi lög. Mörg umhverfisvandamál á borð við, til dæmis, súrt regn í Skandinavíu, Mið-Evrópu og Bandaríkjunum, hefur tekist að leysa þökk sé aðgerðum stjórnvalda og fyrirtækja. Þessar aðgerðir komu til vegna ábendinga vísindamanna og/eða baráttu frjálsra félagasamtaka fyrir umhverfisvernd. Sömuleiðis gerir Lomborg sig sekan um rökleysu þegar hann heimfærir svartsýnustu framtíðarspár einstakra manna upp á þá sem nú vinna að verndun umhverfis og náttúru.

Ritdeilur í Danmörku

,,Sannleikur" Lomborgs vakti miklar ritdeilur í Danmörku. Þær deilur snérust annars vegar um ritstýringu danskra stórblaða á borð við Politiken og Jótlandspóstinn og hins vegar vinnubrögð Lomborgs.

Dagblaðið Politiken hampaði Lomborg mjög og eru ekki dæmi um aðnokkur maður hafi átt jafn auðveldan og/eða tíðan aðgang að umræðusíðu blaðsins á örfáum mánuðum. Á hinn bóginn fullyrtu gagnrýnendur hans úr röðum danskra fræðimanna að greinum þeirra hefði ítrekað verið hafnað af ritstjórum umræðusíðu Politiken eða þeir beðnir að stytta þær mjög til að fá þær birtar í Jótlandspóstinum. Virtist sem Politiken vildi forðast faglega gagnrýni fræðimanna á niðurstöður Bjørns Lomborgs. Eina blaðið sem birti greinar danskra fræðimanna óstyttar var Information.

Fagleg gagnrýni

Þetta kallaði á viðbrögð og í framhaldinu var ráðist í útgáfu bókar, ,,Fremtidens Pris",{+4} þar sem ýmsir fræðimenn fóru yfir og gagnrýndu niðurstöður og vinnubrögð Lomborgs. Í kjölfar útkomu þeirrar bókarinnar var svo efnt til kappræðna milli Lomborgs og gagnrýnenda hans, sem fram fóru við háskólana í Árósum og Kaupmannahöfn í byrjun maí 1999. Fór Lomborg mjög halloka í þeim kappræðum, en nú brá svo við að Politiken sendi ekki blaðamann til að fylgjast með kappræðunum og greindi ekki frá þeim á nokkurn hátt.

Gagnrýnendur Lomborgs deildu einkum á hann fyrir óáreiðanleika í notkun tölfræðilegra upplýsinga, að velja úr þær tilvitnanir sem gögnuðust hans málstað en sleppa öðrum -misnota tilvitnanir. Einnig var hann harðlega gagnrýndur fyrir tilraunir til að gera andstæðingum sínum upp markmið eða skoðanir. Dæmi um hið fyrst nefnda er að finna á bls. 67 í bók Lomborgs þar sem segir: ,,Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir hinum miklu framförum sem við höfum þegar náð. Á síðustu 50 árum hefur fátækt minkað meira en næstu 500 ár á undan. Og það hefur dregið úr fátækt í flestum löndum.{+ldquo}{+5}

Hér vitnar Lomborg í skýrslu Þróunarstofnunar S.Þ. frá 1997{+6}, en lesi maður áfram í sömu skýrslu kemur fram að ,,Á tuttugustu öld hafa átt sér stað miklar framfarir með tilliti til þess að dregið hefur úr fátækt ..." og síðan segir ,,... en framförum hefur verið misskipt og fátækt er enn útbreidd." Lomborg vitnar sem sé bara til fyrri hlutans, sem þjónar hans tilgangi. Hefði hann haldið áfram hefði hann t.d. getað bent á að í umræddri skýrslu S.Þ. segir að vísitala lífsgæða hefur lækkað í 30 löndum.{+7}

Niðurstaða

Hvað sem ,,sannleika" Lomborgs líður var umræðan í Danmörku á margan hátt mjög gagnleg. Þeir sem vinna að umhverfismálum mega heldur ekki gleyma að benda á þann árangur sem náðst hefur og ekki einblína á hið neikvæða. Í öðru lagi er nauðsynlegt að leita og benda á lausnir þeirra vandamála sem við er að etja fremur en að hamra á þeim ömurleika sem við taki verði ekki ráðist í úrbætur. Umhverfisverndarsamtök beina nú kröftum sínum í æ ríkari mæli að slíkum lausnum og má t.d. benda á ,,Marine Stewardship Council" sem WWF (Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn) komu á laggirnar í samvinnu við matvælarisann Unilever til að auðvelda umhverfismerkingar fyrir þá sem standa að fiskveiðum á vistvænan hátt.

Rétt eins og þeir voru til fyrir 10-15 árum sem sögðu súrt regn eða eyðingu ósonlagsins vera bábiljur einar, fylkir Lomborgs sér nú með þeim sem telja að loftslagsbreytingar eða lífræn þrávirk efni á borð við DDT séu ekki mikið áhyggjuefni. Um þriðjungur CO{-2} útblásturs á Íslandi stafar frá íslenskum sjávarútvegi. Hagsmunafélög eins og Fiskifélagið er því mikilvægur aðili í að finna lausnir á því hvernig Ísland getur dregið úr útblæstri. Ennfremur felast hagsmunir Íslands í að vernda íslenskt hafsvæði gegn mengun af völdum þrávirkra efna sem berast langt að. Því er spurt: Er Fiskifélagið, með útgáfu bókarinnar að lýsa sig sammála niðurstöðum Lomborgs?

Heimildir

1 Þ.e.a.s á hvaða umhverfisvandamálum skuli tekið og hversu miklum fjárhæðum skuli varið til slíkra aðgerða.

2 Sjá formála bls. 10. Fiskifélagið 2000.

3 Þetta voru niðurstöður "Rómar-klúbbsins"/The limits of Growth frá 1972, sem byggðar voru á tölfræðilegum upplýsingum frá Massachusett's Institute of Technology.

4 Fremtidens Pris, "Økologisk råd", (Náttúruverndarráð Danmerkur), Kaupmannahöfn 1999.

5 Fiskifélagið, Reykjavík 2000.

6 UNDP Human Development Report 1997.

7 Sjá Fremtidens pris, bls. 307-308.

Höfundur starfar með Náttúruverndarsamtökum Íslands.