Ingibjörg Pálmadóttir afhendir Guðjóni Brjánssyni og Magdalenu Sigurðardóttur frá Ísafirði samninginn.
Ingibjörg Pálmadóttir afhendir Guðjóni Brjánssyni og Magdalenu Sigurðardóttur frá Ísafirði samninginn.
INGIBJÖRG Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í gær samning um árangursstjórnun við sjö heilbrigðisstofnanir. Þær eru Heilbrigðisstofnunin Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstanga, Blönduósi, Siglufirði og Vestmannaeyjum.

INGIBJÖRG Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í gær samning um árangursstjórnun við sjö heilbrigðisstofnanir. Þær eru Heilbrigðisstofnunin Ísafirði, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstanga, Blönduósi, Siglufirði og Vestmannaeyjum.

Ingibjörg rakti við tækifærið aðdraganda samninganna en þeir eiga rætur sínar að rekja til faghóps sem fyrir tveimur árum gerði ýmsar tillögur er sneru að samanburði milli heilbrigðisstofnana. Einnig kom fram að markmið samninganna er margþætt og felur í sér auknar gagnkvæmar skyldur þeirra stofnana sem samið er við. Áhersla verður lögð á að efla áætlanagerð og eftirlitsþátt ráðuneytisins en auka jafnframt sjálfstæði og ábyrgð stofnananna á rekstri sínum og þjónustu.

Samið við allar heilbrigðisstofnanir fyrir 2002

"Þetta er meira frelsi fyrir stofnanirnar en því fylgir að sjálfsögðu meiri ábyrgð fyrir þær," sagði Ingibjörg. Ingibjörg sagði í samtali við Morgunblaðið að með þessum samningum væri verið að gera stjórnun heilbrigðisstofnana skilvirkari. "Það mun einnig auðvelda okkur að gera samanburð milli stofnana því að stefnan er að samræma aðferðir þeirri við að skrá upplýsingar sem varða rekstur og þjónustu. Þannig getum við borið saman hliðstæða kostnaðarliði á ólíkum stöðum."

Ingibjörg segir að með þessum aðferðum ætti að vera hægt að forðast raddir sem héldu því fram að meira væri eitt í eina stofnun en aðra.

Samkvæmt samningunum á hver stofnun að meta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á starfsvæði sínu og hvernig henni verði best mætt. Í því skyni skal hún setja fram í áætlunum sínum til ráðuneytisins skýr markmið, m.a. töluleg, um leiðir að settu marki um árangur og hvernig árangur skuli metinn.

Þessi skilgreining á þjónustu mun skila sér í betri þjónustu segir heilbrigðisráðherra. "Við stuðlum þannig að því að sjúklingar fái bestu þjónustu sem er alltaf lokamarkmiðið," segir Ingibjörg.

Samningarnir eru hluti gæðaáætlunar og við undirritun þeirra kom fram að stefnt er að því að hliðstæðir samningar verði gerðir við allar heilbrigðisstofnanir landsins fyrir árslok 2002.