Tony Blair veifar til þinggesta ásamt Cherie, konu sinni, eftir að hann flutti ræðuna í gær.
Tony Blair veifar til þinggesta ásamt Cherie, konu sinni, eftir að hann flutti ræðuna í gær.
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, hét því í aðalræðu sinni á flokksþingi Verkamannaflokksins í gær að leiða flokkinn til sigurs í næstu þingkosningum, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi tekið forystuna í skoðanakönnunum síðustu daga.

TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, hét því í aðalræðu sinni á flokksþingi Verkamannaflokksins í gær að leiða flokkinn til sigurs í næstu þingkosningum, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi tekið forystuna í skoðanakönnunum síðustu daga.

Blair viðurkenndi að síðustu tvær vikur hefðu verið mjög erfiðar fyrir Verkamannaflokkinn og vísaði til eldsneytisdeilunnar, sem setti allt á annan endann í Bretlandi, vaxandi óánægju með litlar úrbætur í lífeyrismálum og vandræðagangsins vegna Árþúsundahvelfingarinnar í Lundúnum. "Þetta eru mál sem við berum ábyrgð á og hafa reitt almenning til reiði, og við ættum að vera tilbúin að viðurkenna það," sagði Blair og lýsti sig ábyrgan fyrir þeim skakkaföllum sem flokkurinn hefði orðið fyrir vegna þessa.

Forsætisráðherrann ítrekaði að skattar á eldsneyti yrðu ekki lækkaðir, en lagði áherslu á að ríkisstjórnin tæki samt sem áður tillit til skoðana almennings. Þó væri ekki unnt að falla frá grundvallarstefnu til þess að friða háværa mótmælendur, eins og til dæmis að lækka skatta þegar ljóst væri að það kæmi niður á menntakerfinu. "Það er ekki hrokafull ríkisstjórn sem forgangsraðar verkefnum, það er óábyrg ríkisstjórn sem forgangsraðar ekki," sagði Blair.

Keimur af kosningum

Ræða forsætisráðherrans þótti bera keim af því að kosningar væru í nánd, en margir eiga von á að boðað verði til þingkosninga á næsta ári, þrátt fyrir að kjörtímabilið renni ekki út fyrr en í maí 2002.

Blair lofaði umbótum á sviði heilbrigðismála, menntamála og atvinnumála, en búist er við að Verkamannaflokkurinn muni leggja höfuðáherslu á þessa málaflokka í kosningabaráttunni. "Forgangsatriði almennings eru okkar forgangsmál. Þetta er hugsjón fyrir annað kjörtímabil sem er þess virði að berjast fyrir," sagði Blair. Hann tók undir yfirlýsingu fjármálaráðherrans Gordons Browns frá því á mánudag um að reynt yrði að koma til móts við kröfur ellilífeyrisþega, og hét því að herða baráttuna gegn glæpum.

Ávarpi Blairs var vel fagnað af fundarmönnum, en ýmsir hafa haft á orði að þetta sé ein mikilvægasta ræða sem hann hefur flutt á ferlinum, því áframhaldandi stjórnarseta Verkamannaflokksins eftir kosningar sé í húfi.

Brighton. AFP, AP.