Houzé de l'Aulnoit. Þingeyri við Dýrafjörð, 1858. Þjóðminjasafn Íslands.
Houzé de l'Aulnoit. Þingeyri við Dýrafjörð, 1858. Þjóðminjasafn Íslands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Franskir ljósmyndarar á Íslandi 1845-1900, eftir Æsu Sigurjónsdóttur. Hönnun: Jón Ásgeir í Aðaldal. Prentun: Oddi hf. JPV forlag/Þjóðminjasafn Íslands. 136 bls.

BÓKIN Ísland í sjónmáli eftir Æsu Sigurjónsdóttur, þar sem birtar eru myndir franskra ljósmyndara frá Íslandi á síðari hluta 19. aldar, og þar með fyrstu myndirnar sem hér voru teknar, er kærkomið tímamótaverk og til þess fallið að blása lífi í rannsóknir á íslenskri ljósmyndasögu. Ekki er nóg með að bókin sé lagleg og vel unnin, heldur eru rannsóknir höfundar á efninu framúrskarandi, textinn vandaður, og mikil verðmæti fólgin í því að eiga margar þessara mynda á prenti.

Æsa skiptir verkinu í sex efniskafla, eftir ljósmyndinni eða myndasyrpunum sem hún fjallar um hverju sinni, en myndirnar eru varðveittar í þremur frönskum söfnum og í Þjóðminjasafni Íslands, sem reynist eiga tvær merkilegar franskar syrpur frá 19. öld. Stór hluti þessara mynda var grafinn og óskráður á frönskum söfnum, en af eljusemi dró Æsa þær fram í dagsljósið og gerir hér grein fyrir þeim.

Hver kafli hverfist um ákveðnar myndir og ljósmyndara því myndirnar voru teknar á ólíkum forsendum og ljósmyndararnir höfðu ólík svið að bakgrunni, svo sem jarðfræði, mannfræðirannsóknir og sjómælingar. Ljósmyndararnir áttu það sameiginlegt að vera allir sendir til landsins af frönskum yfirvöldum til að skrá upplýsingar og koma á framfæri þegar þeir sneru heim úr leiðöngrunum.

Frakkar voru forystumenn í uppgötvun og rannsóknum á ljósmynduninni. Um aldir höfðu menn reynt að festa spegilmyndina en fyrstur til að leysa gátuna var J.N. Niépce (1765 - 1833), en samstarfsmaður hans, L.J.M. Daguerre (1787 - 1851) varð fyrstur til að kynna uppgötvunina. Það var gert á fundi frönsku Vísindaakademíunnar í ágúst 1839 og er upphaf ljósmyndunar miðað við það ártal. Aðferð Daguerres var allflókin og hafði ýmsa annmarka, en varð samt strax gríðarlega vinsæl. Undirbúa þurfti plöturnar sérstaklega fyrir hverja myndatöku og hver mynd var einstök, ekki var hægt að fjölfalda hana eða flytja yfir á pappír. Daguerretýpur eru silfraðar spegilmyndir og oft erfitt að rýna í þær, en engu að síður eru þetta oft á tíðum einhverjar fegurstu, og jafnframt skörpustu ljósmyndir sem fyrirfinnast.

Eins og Æsa bendir á, þá er saga ljósmyndunar á Íslandi á 19. öld lítt þekkt og brotakennd, rétt eins og ljósmyndasaga margra annarra landa. Markmið hennar með bókinni sé að kynna ljósmyndir Frakka frá Íslandi, setja myndir þeirra í samhengi við það sem var að gerast í ljósmyndun hverju sinni, og sýna fram á tengsl ljósmyndunar, vísindarannsókna og atvinnulífs. Allt þetta gerir hún prýðisvel og persónulega, safnar saman forvitnilegum heimildum og bregður ljósi á það sem myndasmiðirnir eru að gera hverju sinni.

Tímabilið sem hún fjallar um afmarkast af heimildunum. Annarsvegar þeim daguerretýpum sem steindafræðingurinn Des Cloizeaux tók andlátsár Jónasar Hallgrímssonar, 1845 - hann var á ferðinni aðeins sex árum eftir að ljósmyndin var kynnt opinberlega og þær tvær sem varðveist hafa eru fyrstu myndirnar sem vitað er til að teknar hafi verið á landinu -, og hins vegar ljósmyndasyrpu sem liðsforinginn Petitejean tók sumarið 1893. Frásögnin af ferðum Des Cloizeaux er heillandi lesning, þar sem fléttað er saman upplýsingum um þennan steindafræðing sem komst til æðstu metorða á vísindasviðinu, textum úr dagbókum hans og útskýringum á því hvað hann var að fást við. Hann var 28 ára gamall þegar hann var sendur til Íslands vegna rannsókna á silfurbergi og var meðal annars vopnaður myndavél. Hann ljósmyndaði af vísindalegri nákvæmni og fram kemur að hann eyddi a.m.k. sjö dögum í að ljósmynda í Reykjavík. Þær tvær myndir sem varðveist hafa sýna skipalægið og sum helstu hús bæjarins.

Des Cloizeaux bjó hjá Möller lyfsala að Thorvaldsenstræti 6 og myndaði m.a. út um glugga hússins. Hann lýsir vinnunni í dagbók sinni, en 18. til 21. júní skrifar hann einungis: "Held áfram að daguerrótýpa." Nokkrum dögum síðar er lýsingin ítarlegri og okkur gefst færi á að fylgjast með tilurð elstu myndarinnar sem varðveist hefur frá Íslandi: "Fimmtudagur 26. júní. Úrhellisrigning. Klukkan fjögur reyni ég að daguerrótýpa og þrátt fyrir úrkomuna næ ég mér til undrunar góðri mynd, á einni og hálfri mínútu, sem tekin er frá einum af gluggum apóteks Möllers. Á myndinni sést hús Halldóru, hús dómara og tvö hús herra Knudtzons og horn af Latínuskólanum, í fjarska kofar sölufólksins. Torgið, alsett ávölum steinum, kom mjög vel út." Þessi ítarlega lýsing á vel við aðra myndina sem varðveist hefur í París. Hin myndin fellur að dagbókarfærslu degi síðar: "Ég tók tvær myndir af bænum og skipalæginu á 45 sek. Mjög skýrar og ég gaf Möller aðra." Þessar myndir eru á engan hátt best varðveittu eða skýrustu daguerretýpur sem til eru, en fyrir Íslendinga eru þær ómetanleg heimild og dýrgripir sem marka upphaf ljósmyndunar á landinu.

Annar kaflinn er skemmtilega sérkennilegur með umfjöllun um þrjár myndir af Bjarna Jónssyni rektor, sem til eru á Mannfræðisafninu í París. Þar á bæ byrjuðu menn strax árið 1840 að safna myndum af fólki ólíkra þjóða, en ætlunin var að koma á fót safni ljósmynda sem gæfu upplýsingar um ólíka kynþætti mannsins og skyldi nýtast vísindamönnum sem gagnagrunnur. Í hópi þessarra mynda eru þrjár af Bjarna Jónssyni, sem síðar varð rektor Latínuskólans í Reykjavík. Þær eru teknar með fimmtán ára millibili, en sú fyrsta, daguerretýpa frá 1845, mun vera elsta ljósmynd af nafngreindum Íslendingi sem varðveist hefur og tímasett verður með vissu. Bjarni ferðaðist mikið, á þeirra tíma mælikvarða, en í bréfum hans minnist hann ekki á þessar myndatökur. Æsa fjallar hér manninn og samskipti hans við Frakka, sem og afstöðu Íslendinga eins og Benedikts Gröndals til ljósmyndunar á upphafsárum hennar.

Í þriðja kafla bókarinnar er fjallað um ferð Jerome Napóleon prins til Íslands árið 1856. Siglt var á keisaralegri skemmtisnekkju og í förinni bæði málari og ljósmyndari. Sá síðarnefndi var Louis Rousseau, en í Vísindaakademíunni voru miklar vonir bundnar við þann framtakssama ljósmyndara. Því miður hefur einungis ein ljósmynd varðveist af þeim sem Rousseau tók í ferðinni en það er líka einstök mynd sem sýnir unga nafnlausa stúlku á peysufötum. Peysan er þröng, köflóttur silkiklútur bundinn um hálsinn, hún er með rósótta svuntu og skotthúfu á höfði. Hönd stúlkunnar virðist þrútin af vinnu og hún horfir beint í linsuna, svipbrigðalaus, en augun einstaklega dapurleg; eins og lífsneistann vanti alveg í þau. Æsa segir í skýringum sínum að ekki sé verið að taka portrettmynd af ákveðinni manneskju heldur mannfræðilega mynd, dæmigerða fyrir ákveðna manngerð eða kynþátt, en útkoman er ákaflega sláandi og sérstök. Hér er án efa komin einhver áhrifamesta ljósmynd sem tekin hefur verið af Íslendingi; einstakt listaverk sem segir mikla sögu.

Fyrir fimmtán árum keypti Þjóðminjasafnið níu ljósmyndir teknar á Íslandi árið 1858 og fjallar fjórði kaflinn um tilurð þeirra. Þær voru teknar af liðsforingjanum Houzé de l'Aulnoit, skipverja á eftirlitsskipi sem rannsakaði aðstæður í hafi og á landi og aðstoðaði sívaxandi fjölda franskra báta sem fiskuðu við Ísland. Myndirnar eru frá Reykjavík, Dýrafirði og Grundarfirði. Ljósmyndir af byggðinni í Kvosinni hafa strax orðið vinsælasta myndefnið hér á landi, eins og glögglega sést í þessari bók. En einkum eru myndirnar frá Þingeyri frá Dýrafjörð merkar, þar sem Æsa segir að hinn "blákaldi félagslegi raunveruleiki sé í fyrsta sinn festur á mynd á Íslandi." Hér er komin félagsleg heimildaljósmyndun, sem fljótlega varð sérstakt svið ljósmyndunar; á annarri myndinni sjást fiskihjallur og trönur með fiski; kona og ungir drengir húka undir vegg. Þá er athyglisverð mynd af kirkjustaðnum Setbergi, þar sem maður stendur undir timburvegg tjargaðrar kirkjunnar og reyfi liggja til þerris á háum grasi grónum leiðum.

Þegar leið á 19. öldina urðu myndatökurnar viðráðanlegri og við förum að sjá meira af því sem kalla mætti skyndi- og tækifærismyndir, og alls ekki síður athyglisverðar. Læknirinn og náttúrufræðingurinn Henry Labonne kom tvisvar til Íslands, árin 1886 og 87, og var ákafur áhugamaður um allt sem að Íslandi sneri. Á ferðum sínum myndaði hann skútur, landslag, bæi og fólk; hann notaði myndavélina eins og ferðamenn samtímans og þótt þær 31 mynd sem birtar eru úr safni hans séu misgóðar, þá eru sumar mjög áhugaverðar, ekki síst þær sem sýna bóndabæi og fólk. Á einni hefur heimilisfólkið að Loftsstöðum í Gaulverjabæjarsókn safnast saman til myndatöku við útganginn úr bænum. Fyrir framan það hanga vettlingar og sokkaplögg til þerris á girðingarplanka, en fólkið er í sínum bestu fötum, feimið og undirleitt. Tvær aðrar myndir sýna vinnukonur og heimasætur að Kalmanstungu, myndaðar í torfrétt; komnar í sín bestu föt með brot í björtum svuntum horfa þær óvissum augum í glerið sem gleypti síðan augnablikið.

Í lokakafla bókarinnar eru birtar ljósmyndir liðsforingja á frönskum eftirlitsskipum, þeirra August Gratzl, Henri Gaston Lancelin og André Petitjan. Um borð í skipunum virðast myndatökur hafa verið notaðar til vísindalegrar skráningar, en þegar liðsforingjarnir brugðu sér í land, hafa þeir tekið myndavélarnar með sér og haldið skráningunni áfram. Tvær myndir Gratzls minna á mannfræðimyndir fyrri leiðangra, en þær sýna prúðbúnar dætur fyrirmanna Reykjavíkur. Lancelin á myndir af snæbörðu landi eins og það blasir við utan af hafi og húsum í Reykjavík, auk merkilega einfaldrar skyndimyndar af franska grafreitnum í Reykjavík, þar sem látlausir trékrossar og trérammar standa innan hlaðins grjótveggjar.

Petitjean hefur tekið áhrifamestu ljósmyndir þremenninganna. Á einni er sérlega kempuleg áhöfn franskrar duggu og fleiri sýna skipin og lífið um borð. Prent mynda hans eru greinilega allnokkuð skemmd, en myndirnar oft á tíðum glettilega góðar og athyglisverðar, eins og mynd af myllunni við Bankastræti, hversdagsleg götumynd af Laugavegi og mynd af húsi ungfrú Ástríðar Pétursson við Hverfisgötu. Áhrifamesta mynd Petitjeans lýkur síðan bókinni á tilhlýðilegan hátt, þar sést fólk ganga frá messu í Dómkikjunni árið 1893. Allhvass vindur tekur í síð pilsin og í fjarska virðist danski fáninn hanga í lausu lofti.

Æsa Sigurjónsdóttir á hrós skilið fyrir að safna þessum myndum saman, búa þær til prentunar og fyrir að koma rannsóknum sínum til skila í vönduðm og forvitnilegum textanum. Að sama skapi ber að lofa útgefendur, Þjóðminjasafn Íslands og JPV-Forlag fyrir að standa svo myndarlega að útgáfu bókarinnar, og stuðla þannig að útgáfu vandaðra og merka ljósmynda og rannsókna á ljósmyndasögu.

Ísland í sjónmáli er stílhrein bók, í hefðbundnum anda ljósmyndabóka í stóru broti þar sem reynt er að láta ljósmyndirnar njóta sín eins vel og hægt er. Textinn er á íslensku og frönsku og helst hægt að finna að skáletursgerðinni sem er ekki nógu læsileg. Prentunin er ágætlega af hendi leyst, myndirnar nokkuð brúnar, en það getur hæft gömlum myndum sem þessum; sögulegum myndum sem eiga svo sannarlega erindi við þjóðina.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson