EKKI er gert ráð fyrir að framkvæmdir við viðbyggingu Amtsbókasafnsins á Akureyri og breytingar á eldra húsnæði safnsins hefjist fyrr en næsta vor. Hins vegar er stefnt að því að bjóða verkið út í lok október eða byrjun nóvember nk.

EKKI er gert ráð fyrir að framkvæmdir við viðbyggingu Amtsbókasafnsins á Akureyri og breytingar á eldra húsnæði safnsins hefjist fyrr en næsta vor. Hins vegar er stefnt að því að bjóða verkið út í lok október eða byrjun nóvember nk. að sögn Magnúsar Garðarssonar, eftirlitsmanns framkvæmda hjá Akureyrarbæ.

Viðbyggingin við Amtsbókasafnið verður um 1.400 fermetrar að stærð og heildarstærð hússins eftir að nýbyggingin er risin tæpir 2.600 fermetrar. Magnús sagði að gróft áætlað yrði kostnaður vegna framkvæmda við safnið í kringum 250 milljónir króna.

Hann sagði ekki skynsamlegt að fara í mikið jarðrask á lóð Amtsbókasafnsins fyrr en með vorinu, auk þess sem mikil þensla væri á byggingamarkaðnum í bænum um þessar mundir. Hann taldi að með því að bíða með framkvæmdir til vors gæti bærinn átt von á að fá hagstæðari tilboð í verkið. "Meiningin er að bjóða pakkann út í heilu lagi en þarna er um að ræða umfangsmiklar breytingar í gamla húsinu, viðbygginguna og heilmikla vinnu í lóðinni."

Verður mjög dýrt hús

Magnús sagði ráðgert að vinna verkið á tveimur til þremur árum. "Mér sýnist þetta ætla að verða ansi dýrt hús og hallast því frekar að því að framkvæmdir taki þrjú ár. Gróft áætlað er verið að tala þarna um verk upp á um 250 milljónir króna."

Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu er saga viðbyggingarinnar við Amtsbókasafnið orðin ansi löng og trúlega sú lengsta innan bæjarkerfisins í langan tíma, ef ekki frá upphafi. Bæjarstjórn samþykkti í lok ágúst 1987 að stækka hús safnsins, í tilefni af 125 ára afmæli bæjarins. Árið 1988 var efnt til samkeppni um hönnun nýbyggingarinnar og hlaut tillaga Guðmundar Jónssonar arkitekts, sem starfar í Noregi, fyrstu verðlaun. Í kjölfarið var gerður samningur við Guðmund um arkitektavinnu vegna hönnunar viðbyggingarinnar en fleiri aðilar komu að verkinu m.a. vegna tæknilegra verkefna.

Mikil óánægja með seinaganginn

Frá þessum tíma hefur lítið gerst í málinu, þar til á síðustu mánuðum og enn er beðið eftir því að hönnuðir ljúki sinni vinnu. Síðastliðið vor lýsti framkvæmdanefnd bæjarins yfir megnri óánægju með seinaganginn við hönnunina, enda hefði verið ákveðið að fara af stað með verkið á þessu ári. Það mun ekki ganga eftir en hins vegar er útlit fyrir að hægt verði að bjóða verkið út eftir 1-2 mánuði og hefja framkvæmdir næsta vor, 14 árum eftir að samþykkt var í bæjarstjórn að stækka safnið.