VETRARSTARF Akureyrarkirkju hefst næsta sunnudag, 1. október, og markar fjölskylduguðsþjónusta sem hefst kl. 11 upphafið að því. Sunnudagaskólabörn fá afhentan fyrsta hlutann af því efni sem verður til umfjöllunar í barnastarfinu næstu mánuði.

VETRARSTARF Akureyrarkirkju hefst næsta sunnudag, 1. október, og markar fjölskylduguðsþjónusta sem hefst kl. 11 upphafið að því. Sunnudagaskólabörn fá afhentan fyrsta hlutann af því efni sem verður til umfjöllunar í barnastarfinu næstu mánuði.

Að lokinni guðsþjónustu verður opið hús í Safnaðarheimilinu. Boðið verður upp á veitingar og þar fer fram kynning á því sem verður í boði í safnaðarstarfinu í vetur auk þess sem ýmis sjálfstæð félög og hópar sem hafa aðstöðu í húsakynnum kirkjunnar kynna starfsemi sína. Meðal þess sem kynnt verður er sunnudagaskólinn, æskulýðsfélagið, biblíulestrar, Samhygð, samtök um sorg og sorgarviðbrögð, sjálfshjálparhópur foreldra, mömmumorgnar, tónlistarstarfið, samverur eldri borgara, kvenfélag kirkjunnar, námskeið á hennar vegum, félag einstæðra foreldra, starf 12-spora hópa og heimsóknarþjónusta.

Ósýnilegi vinurinn

Kynningin fer fram í Safnaðarheimilinu til kl. 14 um daginn, en kl. 16 verður leiksýning í Akureyrarkirkju. Stoppleikhópurinn sýnir leikritið Ósýnilega vininn sem byggist á bók Kari Vinje og Vivian Zahl Olsen. Leikritið er ætlað börnum á aldrinum 2-8 ára og tekur sýningin um 40 mínútur. Leikendur eru Eggert Kaaber og Katrín Þorkelsdóttir. Foreldrar eru velkomnir með börnum sínum og er aðgangur ókeypis.