Guðmundur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Máka, fyrir miðju ásamt Halldóri Arinbjarnar og Birni Theodórssyni, starfsmönnum  Máka.
Guðmundur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Máka, fyrir miðju ásamt Halldóri Arinbjarnar og Birni Theodórssyni, starfsmönnum Máka.
Fiskeldisfyrirtækið Máki á Sauðarkróki hefur undanfarin ár tekið þátt í evrópskum verkefnum er snúa að endurnýtingu vatns og náð góðum árangri. Björn Gíslason ræddi við framkvæmdastjórann Guðmund Örn Ingólfsson, sem segir að barraeldi verði vonandi undistaða fyrirtækisins í framtíðinni þótt tækniþróunin sé nú ofarlega á blaði.

FISKELDISFYRIRTÆKIÐ Máki hf. hefur verið rekið á Sauðárkróki síðan 1993. Fyrirtækið er ekki í alla staði venjulegt fiskeldisfyrirtæki þar sem stór hluti starfseminnar er tækniþróun og þá fyrst og fremst á sviði endurnýtingar vatns. Guðmundur Örn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Máka, segir að drög að stofnun fyrirtækisins hafi verið gerð 1992 þegar 200.000 barraseiði voru pöntuð erlendis frá. Ekki höfðu allir mikla trú á þessu verkefni og segir Guðmundur að meðal annars hafi honum verið úthúðað á ráðstefnu sem fiskeldismenn héldu einmitt um þetta leyti. Seiðin komu til landsins árið 1993 og ala átti þau í stöð Máka á Sauðarkróki, Máka1, og nota átti vatnsendurnýtingarkerfi í eldinu.

"Endalok þessara seiða urðu nú hálfdapurleg en jafnframt söguleg. Þetta voru í sjálfu sér ekki mikil verðmæti en við höfðum alið þau með heldur frumstæðu endurnýtingarkerfi í eitt ár þegar svo vill til að við missum þau öll. Ástæða þess var örlítil bilun í tæknibúnaði og viðvörunarkerfið stóð á sér og því misstum við öll seiðin á einni nóttu. Við höfum nú í gamni kallað þetta fjölmiðladauðann mikla þar sem þetta var básúnað í öllu helstu miðlum þegar þetta gerðist. Svo mikil var umfjöllunin um þetta að tveimur dögum eftir þetta átti ég leið um Reykjavík þegar að mér kemur maður og samhryggist mér yfir þessu eins og ég hefði misst einhvern nákominn, slík var hryggðin yfir þessu."

Fyrsta Evrópuverkefnið

Eftir fjölmiðladauðann mikla voru ný seiði fengin til landsins og vinnunni haldið áfram. Árið 1994 tók Máki síðan þátt í fyrsta Evrópuverkefninu sínu en það var Eureka-verkefnið en verkefnin hafa orðið mörg síðan. "Þetta fyrsta verkefni var mjög lítið í sniðum en var okkur stökkpallur til að sækja fram. Það var síðan árið 1995 sem við sækjum um þátttöku í Maritech-verkefninu sem er einmitt að ljúka um þessar mundir. Í því verkefni byggðum við upp stöðina á Sauðarkróki með sífelldum endurbótum með það að markmiði að þróa endurnýtingarkerfi á vatni sem nýst getur í smáu eldi. Við vorum alveg fram á síðasta ár að vinna að endurbótum á því kerfi en segja má að þar hafi verið unnin grunn þróunarvinna að vatnsendurnýtingarkerfi. Segja má að það kerfi sé að mörgu leyti ófullkomið. Það ber ekki mikinn lífþunga né mikla framleiðni enda er það frekar hugsað fyrir smáseiði.

Það var alltaf meiningin að stækka stöðina sem var á Sauðárkróki og það er árið 1997 sem stjórnin biður mig um að skoða aðstæður í Fljótum hjá þrotabúi Miklalax. Þar var annars vegar seiðaeldisstöð sem hentaði ákaflega vel sem lokaútfærsla á því sem við vorum að vinna að á Sauðárkróki en hins vegar 1.800 rúmmetra matfiskeldisstöð að Hraunum en þessar stöðvar heita nú Máki 2 og Máki 3."

Endurnýtingar- kerfið gefist vel

Búið er að útbúa Máka 2 með endurnýtingarkerfi og segir Guðmundur að sú stöð sé lokapunkturinn í Maritach-verkefninu. Endurnýtingarkerfið sem er í henni er í alla staði byggt á þeirri vinnu sem unnin var í Máka 1 á Sauðarkróki en er 2-3 sinnum öflugra. "Máki 2 hefur sýnt og sannað að hún er í öllum meginatriðum rétt hönnuð. Öll tæknin hefur reynst frábærlega vel og nú er aðeins beðið eftir því að lífmassinn í stöðinni verði nægilega mikill til að hægt verði að keyra hana á fullum afköstum.

Endurnýtingarkerfið virkar þannig að aðeins 2% af sjónum sem tekinn er inn í kerinn er nýr sem þýðir að við erum að endurnýta sjóinn 40-60 sinnum. Sjórinn sem kemur inn er mjög súrefnisríkur, eða með um 300% súrefni miðað við það sem er í náttúrunni.

Við erum með útbúnað í kerjunum sem safnar saman bæði úrgangi og fóðurleyfum. Vatnið fer síðan úr kerjunum og inn í tromlusíur sem sía allar agnir frá. Þaðan fer sjórinn í svokallað safnkar þar sem hita og sýrustigi vatnsins er stýrt, síðan er sjónum dælt í gegnum útfjólublátt ljós sem drepur bakteríur og loks fer vatnið í lífhreinsa sem vinnur ammoníakið, sem fiskarnir gefa frá sér, úr vatninu. Eftir það er sjórinn loftaður og súrefnisbættur og þá er hann tilbúinn til að fara í kerið á ný. Kostir kerfisins eru ekki aðeins þeir að við erum að taka lítið vatn inn á hverjum tíma heldur einnig það að allur úrgangur er settur í rotþrær og allur sjór sem fer út í umhverfið aftur er síaður. Það eiga því ekki að sjást nein ummerki stöðvarinnar í umhverfinu."

Endurnýtingarkerfi í matfiskeldi Máki 3, sem er staðsett að Hraunum í Fljótum, verður notuð í Mistral Mar-verkefninu og segir Guðmundur að mikla þróunarvinnu verði að vinna til að hægt sé að nota stöðina til barraeldis. "Til að geta notað stöðina á Hraunum til barraeldis þarf hins vegar að búa til nýtt endurnýtingarkerfi sem hægt er að nota í svona stórum kerjum en þau eru 24 metrar í þvermál og til þess þarf nýja hugsun til. Við erum því komnir í nýtt Evróuverkefni, Mistral Mar, sem hefur það að markmiði að útbúa endurnýtingarkerfi fyrir 700-1.000 tonna matfiskeldi og verður sú vinna unnin í Máka 3. Mistral Mar-verkefnið fór af stað í apríl sl. og hefur verið unnið mjög ötullega að því síðan. Verkefnið er mjög stórt umfangs og mun flóknara heldur en fyrri verkefnin. Það snýst að miklu leyti um stjórnun á eldi í miklu magni, stjórnun á eldisferlinu og eins eldi í þessum stóru kerjum.

Endurnýtingarkerfi eru ákaflega ung og hafa fyrst og fremst verið notuð í einföldu smáseiðaeldi. Verkefnin sem við höfum verið að vinna að miða að því að stækka þessi kerfi upp og færa þau nær markaðnum með því að gera þau fjárhagslega hagkvæm.

Í endurnýtingarkerfum hefur maður fullkomna stjórn á umhverfi lífveranna, það sparast óhemjumikil hitaorka og vatnsorka og eins er hrein umhverfisvernd sem hlýst af þeim þar sem ekkert fer frá stöðinni nema búið sé að meðhöndla það sérstaklega."

Ekki allt fengið með styrkjum

Máki hefur tekið þátt í mörgum Evrópuverkefnum og hafa mörg þessara verkefna fengið umtalsverða fjárstyrki. Guðmundur Örn segir þó að það sé ekki allt fengið með þeim og menn sjái peningana sjaldnast. "Styrkina sem fást frá Evrópusambandinu er eitthvað sem þú reiknar ekki með því að nota til að greiða launin. Maður sér sjaldnast peninginn en maður sér tækið og það er miklu fullkomnara en það sem maður hefur annars völ á, fyrst og fremst sökum mannauðsins. Í okkar tilfelli erum við með sömu aðilum í Mistral Mar og við vorum með í Maritech og segja má að það hafi verið verkefni sem hristi hópinn saman, kenndi mönnum að vinna saman og sannaði að grundvöllur væri fyrir einhverju stærra. Ef við hefðum ekki verið búin að fara í gegnum Maritech-verkefnið hefðum við aldrei getað ráðist í jafnstórt og flókið verkefni eins og Mistral Mar.

Evrópuverkefnin hafa það í för með sér að við verðum að selja tæknina sem við þróum en á móti kemur að hluti hennar er einkaleyfishæfur. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verður sala á þekkingu stór þáttur í rekstri fyrirtækisins þó svo að eldi á fiski verði vafalítið kjölfestan í rekstri fyrirtækisins. Ég reikna því með að barri verði alltaf alinn hjá Máka og vildi gjarnan óska þess að barri væri alinn hjá fleiri fyrirtækjum hérlendis."

Enda ferilinn á túnfiskeldi

Þó svo að Mistral Mar-verkefnið sé unnið með barra er það ætlunin að tæknina verði hægt að nýta með litlum breytingum til eldis á öðrum tegundum. Guðmundur segir að ef tækninni sem er á bak við eldi á barra væri steypt saman við eldi laxfiska gæti það gefið mikla möguleika. "Það er von mín að ef við getum brætt saman þá þekkingu sem er í stórri laxeldisstöð og tækniþekkinguna í eina skilgreiningu þá geti íslensk fyrirtæki verið með eitthvað geysilega verðmætt í höndunum. Til að breyta þeim kerjum sem notuð eru fyrir þarf aðeins að byggja upp, ekki brjóta niður.

Endurnýtingarkerfið í Máka 1 og Máka 2 á sér hliðstæða tækni í álaeldi og eins í meðhöndlun á skólpi. Það er fyrst núna í Máka 3 sem verið er að gera alveg nýja hluti og ef það verkefni kemur til með að ganga alveg upp getum við sér fyrir okkur viðfangsefni þar sem eldisrýmið er nánast óendanlega stórt. Ég hef einmitt hugsað um til gamans hvort ég ætti að enda starfsferilinn á því að búa til nýtt kerfi til að ala túnfisk því þar er tegund sem þarf mikið rými.

Þó svo að menn geri sér kannski ekki grein fyrir því hérlendis er endurnýting það sem koma skal og menn eru í miklu kapphlaupi erlendis við að hanna kerfi til að stuðla að því. Það eru gríðarlegar fjárhæðir sem fara í þessar rannsóknir og má með góðu móti líkja þessu við kapphlaupið í erfðafræðinni. Þetta stafar að miklu leyti af því að menn sjá fyrir sér að fiskeldi sé nánast eina leiðin til að auka framleiðslu á fiskpróteinum til neyslu en það er ljóst að það verður ekki gert með þeim mengunaráhrifum sem kvíaeldi hefur."

Fiskeldi kjölfestan

Þó svo að tækniþróunin sé ofarlega á baugi í Máka leggur Guðmundur Örn áherslu á að eldi fisks verði kjölfestan í fyrirtækinu. Hvað eldið varðar þá er Máki með 100.000 fiska í Máka 2 og annað eins í Máka 1. Guðmundur segir að það sem hvíli á þeim nú er að koma öllum þeim eldisfiski fyrir í Máka 2 sem þar rúmast en það er megnið af þeim fiski sem nú er til. "Síðan í framhaldinu munum við nota alla okkar krafta á Sauðárkróki í seiðaeldi. Við erum með hrygningarstofn og það er verið að vinna í því að útbúa ljósastýringu í Máka 2 til að við getum farið að taka okkar eigin hrogn. Ætlunin er að næsta vetur munum við nota saman okkar eigin hrogn annars vegar og innflutt hins vegar. Það er markmið okkar að fá jafnvægi í hrognaframleiðsluna þannig að innflutningur heyri til undantekninga. Fram til þessa höfum við neyðst til að slátra fiski í stórum stíl við 300 gramma stærð vegna þrengsla en þegar Máki 3 verður kominn í notkun er ætlunin að ala allan fisk þar upp í kílós stærð. Þegar sú stöð verður komin í fulla notkun eigum við að geta framleitt allt frá 700 og upp í 1.000 tonn. Það fer þó allt eftir því hvað við getum alið fiskinn við mikinn þéttleika í stóru kerjunum."

Íslenskt fiskeldi á tímamótum

Á aðalfundi Máka í ágúst sl. var samþykkt að auka hlutafé um 100 milljónir, eða um 40 milljónir á nafnverði á genginu 2,5, en fyrir var það um 136 milljónir á nafnverði. "Verið er að undirbúa það hlutafjárútboð en fram til þessa hefur gengið vel að afla fyrirtækinu hlutafjár. Ég tel að með Máka 2 sjái menn betur hvað við erum að hugsa og sjái nýnæmið í þessu og framtíðarmöguleikana.

Íslenskt fiskeldi stendur á tímamótum. Við höfum yfir að ráða geysilega mikilli og verðmætri þekkingu. Ég hef trú á því að í framtíðinni komum við til með að sjá aukna samvinnu og jafnvel samruna hjá eldisfyrirtækjunum. Það er síðan spurning hvað fjárfestar gera en það er líklegt að þeir sýni fiskeldi aukinn áhuga ef einingarnar verði stærri."