NÚ er að fara af stað fjölbreytt starfsemi í félagsheimilunum Gjábakka, Fannborg 8 og Gullsmára, Gullsmára 13. Þessi tvö félagsheimili eru sérstaklega ætluð fyrir félagslíf þeirra sem eru hættir launavinnu enda þótt allir séu velkomnir.

NÚ er að fara af stað fjölbreytt starfsemi í félagsheimilunum Gjábakka, Fannborg 8 og Gullsmára, Gullsmára 13. Þessi tvö félagsheimili eru sérstaklega ætluð fyrir félagslíf þeirra sem eru hættir launavinnu enda þótt allir séu velkomnir. Félagsheimilin eru opin alla virka daga frá kl. 9 til 17 og utan opnunartíma eru áhugamannahópar að störfum, segir í fréttatilkynningu.

Starfsemi Félags eldri borgara í Kópavogi fer einnig fram innan veggja félagsheimilanna. Þar má nefna Frístundahópinn Hana-nú sem hefur umsjón með stuttum menningarferðum t.d. í leikhús, á tónleika o.fl. Sú nýbreytni verður í vetur að menningarferðir Hana-nú verða á sunnudögum.

Í dagskránni er að finna göngur, fjölbreytt námskeið, bobb, boccia, leikfimi, jóga, dans, hringdans, fjölbreytta handavinnu m.a. japanskan pennasaum o.fl. Hádegismatur er alla virka daga í Gjábakka en enn sem komið er er matur aðeins á þriðju- og föstudögum í Gullsmára. Heitt er á könnunni og heimabakað meðlæti er selt á vægu verði á opnunartíma alla virka daga í báðum félagsheimilum. Þar er hægt að lesa dagblöðin, hlusta á útvarp og sjónvarp og einnig er nokkuð til af bókum. Dagskrár um starfsemina liggja frammi í félagsheimilum.