FÉLAG íslenskra fræða efnir til rannsóknarkvölds í Skólabæ við Suðurgötu, miðvikudagskvöldið 27. september kl. 20.30. Fyrirlesari kvöldsins er Svanhildur Óskarsdóttir og erindi hennar ber heitið "Fyrirgefðu, en geturðu sagt mér hvar helvíti er?

FÉLAG íslenskra fræða efnir til rannsóknarkvölds í Skólabæ við Suðurgötu, miðvikudagskvöldið 27. september kl. 20.30. Fyrirlesari kvöldsins er Svanhildur Óskarsdóttir og erindi hennar ber heitið "Fyrirgefðu, en geturðu sagt mér hvar helvíti er? Um handanheima í íslenskum miðaldaritum," segir í fréttatilkynningu.

Landafræði handanheima var órjúfanlegur hluti heimsmyndar miðaldanna og gegndi mikilvægu hlutverki í þeim hugmyndum sem menn gerðu sér um efstu daga. Í fyrirlestrinum verður fjallað um dvalarstaði framliðinna eins og miðaldamenn hugsuðu sér þá og kannað hvers konar upplýsingar um handanheima er að finna í íslenskum miðaldaritum. Þar koma við sögu paradís, himnaríki, helvíti, hreinsunareldur og limbó en ætla má að á miðöldum hafi þessir staðir haft meiri og nærtækari þýðingu fyrir Íslendinga en varð síðar, í lúterskum sið.

Svanhildur Óskarsdóttir lauk BA-prófi í íslensku og heimspeki frá Háskóla Íslands 1988 og MA-prófi í miðaldafræðum frá háskólanum í Toronto, Kanada, ári síðar. Á árunum 1993-99 gegndi hún stöðu Halldórs Laxness, lektors í nútímaíslensku við Lundúnaháskóla, jafnframt því að vinna að doktorsritgerð í norrænum fræðum við sama skóla. Ritgerðina, sem nefnist Universal history in fourteenth-century Iceland: Studies in AM 764 4to, varði hún 2. júní síðastliðinn. Svanhildur starfar nú við útgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar á Stofnun Árna Magnússonar.