SAMNINGAR þeir sem hafa verið í undirbúningi milli nokkurra sjúkrahúsa og líftæknifyrirtækisins Urðar Verðandi Skuldar um aðgang að lífsýnum vegna krabbameinsrannsókna veita fyrirtækinu ekki einkarétt á aðgangi að þeim lífsýnum.

SAMNINGAR þeir sem hafa verið í undirbúningi milli nokkurra sjúkrahúsa og líftæknifyrirtækisins Urðar Verðandi Skuldar um aðgang að lífsýnum vegna krabbameinsrannsókna veita fyrirtækinu ekki einkarétt á aðgangi að þeim lífsýnum. Guðríður Þorsteinsdóttir, lögfræðingur og skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, sagði við Morgunblaðið að hún vildi ekki tjá sig um samningaviðræður við Urði Verðandi Skuld, en tók fram að samkvæmt nýjum lögum um lífsýnasöfn, sem taka gildi um næstu áramót, skuli setja reglur um hvernig tryggja skuli jafnræði þeirra sem óska eftir aðgangi að lífsýnasöfnum vegna vísindarannsókna. Þar sé fyrst og fremst haft í huga að sjúkrastofnanir í eigu hins opinbera mismuni ekki vísindamönnum. Þær geti því ekki lofað einum aðila að hann einn fái aðgang að tilteknum sýnum.

Með fyrrgreindum reglum verður tryggt að vísindamenn eða stofnanir sem stunda vísindarannsóknir og aflað hafa tilskilinna leyfa vísindasiðanefndar og tölvunefndar hafi jafnan aðgang að lífsýnum sem sjúkrahús hafa safnað. Líftæknifélagið Urður Verðandi Skuld hefur verið í samningum við Landsspítala - háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um rannsóknir á krabbameini og er þar gert ráð fyrir aðgangi að lífsýnum að fengnum tilskildum leyfum.

Guðríður ítrekaði að hún vildi ekki ræða sérstaklega fyrirhugaða samninga Urðar Verðandi Skuldar en sagði aðspurð að samkvæmt lögum um lífsýnasöfn væri ekki heimilt að veita aðgang að lífsýnum til rannsókna fyrr en aflað hefði verið leyfis tölvunefndar og fyrir lægi rannsóknaáætlun samþykkt af vísindasiðanefnd eða siðanefnd viðkomandi sjúkrastofnunar. Að uppfylltum þessum skilyrðum væri það síðan safnstjórn viðkomandi lífsýnasafns sem veitti endanlegan aðgang. Sé um að ræða lífsýnasafn sjúkrahúss er safnstjórn ekki heimilt að mismuna vísindamönnum.

Öðru máli gegnir hins vegar um einkaaðila, s.s. vísindamenn eða fyrirtæki, sem safnað hafa lífsýnum á eigin kostnað vegna tiltekinna rannsókna. Að sögn Guðríðar er ekki gert ráð fyrir að þeim verði skylt að veita öðrum vísindamönnum eða fyrirtækjum aðgang að slíkum sýnum.