Næsta sumar mun ný, um 7 metra há, vatnsrennibraut rísa í Grafarvogslaug.
Næsta sumar mun ný, um 7 metra há, vatnsrennibraut rísa í Grafarvogslaug.
ÞRJÁR nýjar vatnsrennibrautir verða settar upp í Breiðholtslaug og Grafarvogslaug næsta sumar, en byggingardeild Borgarverkfræðings hefur þegar óskað eftir tilboðum í rennibrautirnar. Kristinn J.

ÞRJÁR nýjar vatnsrennibrautir verða settar upp í Breiðholtslaug og Grafarvogslaug næsta sumar, en byggingardeild Borgarverkfræðings hefur þegar óskað eftir tilboðum í rennibrautirnar. Kristinn J. Gíslason, verkefnisstjóri ÍTR, sagði að rennibrautirnar yrðu ólíkar í laginu en að við val á þeim yrði stuðst við þarfagreiningu sem fram hefði farið á meðal viðskiptavina lauganna.

"Rennibrautin í Grafarvogslauginni verður nokkuð stór, en þó aðeins minni en rennibrautin í Laugardalslauginni," sagði Kristinn J.

Kristinn J. sagði að tilboðsgjafarnir hefðu nokkurt svigrúm varðandi stærð og hönnun rennibrautarinnar, en að samkvæmt útboðsgögnum væri gert ráð fyrir því að brautin yrði spírallaga um 40 metra löng og um 7 metra há. Hann sagði að við hönnun brautarinnar þyrfti að gera ráð fyrir því að hægt verði að stækka rennibrautina síðar, væntanlega innan tveggja til þriggja ára.

Að sögn Kristins J. verður byggð lítil laug við rennibrautina og þá verður einnig byggð lítil vaðlaug fyrir sundlaugargesti.

Vatnsrennibrautirnar tilbúnar næsta sumar

Í Breiðholtslaug er ráðgert að setja upp tvær samsíða brautir sem munu liggja beint ofan í litla laug sem nú þegar er við hlið aðallaugarinnar.

"Þessar brautir verða beinar en með svona einhverjum hryggjum sem gefa skemmtilega tilfinningu þegar krakkarnir rúlla niður."

Rennibrautirnar í Breiðholtslaug verða nokkru minni en sú sem á að reisa í Grafarvogslaug, en miðað er við að þær verði um 5 til 6 metra háar. Önnur brautin verður um 25 metra löng og hin um 30 metra löng.

Kristinn J. sagði að allar rennibrautirnar yrðu keyptar á þessu ári en að þær yrðu ekki settar upp fyrr en á næsta ári. Hann sagði að rennibrautirnar í Breiðholtslaug ættu að geta verið komnar í notkun upp úr miðju sumri en rennibrautin í Grafarvogslaug eitthvað seinna, þar sem byggja þyrfti sérlaug við hana.