Áhugahópur um sveit í borg afhenti Ármanni Kr. Ólafssyni, formanni skipulagsnefndar í Kópavogi, undirskriftir tæplega 11 þúsund íbúa sem mótmæla fyrirhugaðri byggð.
Áhugahópur um sveit í borg afhenti Ármanni Kr. Ólafssyni, formanni skipulagsnefndar í Kópavogi, undirskriftir tæplega 11 þúsund íbúa sem mótmæla fyrirhugaðri byggð.
ÁHUGAHÓPUR um "Sveit í borg" afhenti í gær Ármanni Kr.

ÁHUGAHÓPUR um "Sveit í borg" afhenti í gær Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og formanni skipulagsnefndar Kópavogs, undirskriftalista með tæplega 11 þúsund undirskriftum, þar sem þess er farið á leit við bæjaryfirvöld að þau falli frá fyrirhuguðum skipulagstillögum um byggð í landi Vatnsenda.

"Það eru fordæmi fyrir því að svona undirskriftalistar skili árangri og við hefðum aldrei lagt út í þessa söfnun ef við hefðum haldið að bæjaryfirvöld myndu taka þetta og stinga þessu ofan í skúffu," sagði Rut Kristinsdóttir, íbúi á Vatnsenda, þegar hún afhendi Ármanni Kr. listana. "Nú er boltinn hjá bæjaryfirvöldum en við erum ekkert sofnuð á verðinum."

Viðkvæmt samspil umhverfis og lífríkis

Rut sagði að Elliðavatn og umhverfi þess væri náttúruperla við höfuðborgarsvæðið, tengt Elliðaárdal og Heiðmörkinni. Hún sagði að þúsundir manna legðu leið sína um Elliðavatnssvæðið árlega til þess að njóta þar fjölbreyttrar útivistar og að vatnið væri eitt lífríkasta vatn landsins.

"Mikilvægt er að tekið sé tillit til viðkvæms samspils umhverfis og lífríkis áður en ráðist er út í óafturkræfar framkvæmdir. Jafnframt leggjum við til að framtíðarskipulag svæðisins taki mið af einu meginmarkmiði núgildandi aðalskipulags Kópavogs, en þar stendur: Ný byggð skal falla vel að umhverfinu og þess gætt að náttúruverðmætum sé ekki spillt."

Fáum ekki umflúið dóm komandi kynslóða

Rut vitnaði síðan í erindi, sem Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur flutti á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 1949, en þar sagði hann: "En til eru þau verðmæti sem ekki verða metin til fjár og það þó þau, sem gefa mannlegu lífi innihald og meiningu og er ekki vafasamt raunsæi að vanmeta þau? Seðlarnir fúna og við sem þeim söfnum, fúnum líka, en við fáum ekki umflúið þann dóm komandi kynslóða um það, hvernig við skiluðum landinu okkar í þeirra hendur. Það er stundum hægt að bæta tjón af fjármálalegum eða pólitískum afglöpum, en fordjarfanir á náttúrumenjum eru í flokki þeirra afglapa sem ekki verða bætt. Allt gull jarðar getur ekki gefið okkur aftur einn einasta geirfugl, og engin nýsköpunartækni getur byggt upp Rauðhólana að nýju."

Of snemmt að segja til um framvindu mála

Ármann Kr. sagði of snemmt aðsegja til um það hvaða áhrif undirskriftalistarnir og þessi mótmæli íbúanna myndu hafa á framvindu mála.

"Ég mun kynna þetta fyrir skipulagsnefnd og segja þeim frá þessu og svo mun ég afhenda þetta settum bæjarstjóra og vænti þess að þessu verði komið á framfæri við bæjarfulltrúa," sagði Ármann Kr. "Hvað skipulagsnefnd varðar þá förum við allar þær athugasemdir sem berast og svörum þeim og mér sýnist þetta koma inn á marga þá þætti sem þegar er búið að koma inn á varðandi athugasemdirnar."

Eins og kom fram í Morgunblaðinu á föstudaginn, þá hefur borgarstjórn Reykjavíkur óskað eftir formlegum viðræðum við bæjaryfirvöld í Kópavogi um Vatnsendasvæðið og farið fram á náið samstarf bæjarfélaganna um skipulag þess svæðis sem liggur að Elliðavatni.

Höfum verið í samstarfi við Reykjavíkurborg

"Varðandi þetta þá vil ég bara segja það að við höfum verið í samstarfi við Reykjavíkurborg varðandi þetta mál," sagði Ármann Kr. "Þess vegna skil ég ekki hvað Reykjavíkurborg er að fara, það hefur aldrei staðið á okkur að ræða umhverfismálin, en eins og málið er framsett af Reykjavíkurborg þá er eins og við höfum ekki viljað tala við þá. Hinsvegar munum við ekki spyrja þá út í skipulagsmálin, eða hvernig við eigum að skipuleggja. Ef við setjum okkur ramma og ákveðin skilyrði varðandi umhverfismálin þá treystum við okkur alveg til þess að skipuleggja byggðina í samræmi við það."