SIGLINGAMÖNNUM gekk heldur brösulega að halda sjó í gær þegar sjöunda umferð af ellefu var sigld í flokki Lazer-kæna, þar sem Hafsteinn Ægir Geirsson er á meðal þátttakenda.

SIGLINGAMÖNNUM gekk heldur brösulega að halda sjó í gær þegar sjöunda umferð af ellefu var sigld í flokki Lazer-kæna, þar sem Hafsteinn Ægir Geirsson er á meðal þátttakenda. Mjög misvindasamt var á keppnisvæðinu og ekki bætti úr skák að það rigndi sem hellt væri úr fötu hluta þess tíma sem menn voru til sjós. Hafsteinn varð 42. og næst síðastur í gær, um það bil fimm mínútum á eftir ítölskum keppanda sem vann mjög óvænt. Eftir sem áður rekur Hafsteinn lestina í stigakeppninni, hefur 278 stig, er 26 stigum á eftir keppanda frá Gúam en sá er næst neðstur. Þriðji neðstur er siglingamaður frá Kýpur, 30 stigum á undan Hafsteini.

Sökum þess að aðeins tókst að fara aðra af ferðum gærdagsins vegna slæmra aðstæðna þá verður áttunda umferðin í dag, en síðan verður gert eins dags hlé þar til farnar verða tvær umferðir á föstudag áður en að lokaumferðinni kemur á laugardag, en Hafsteinn verður síðastur íslensku keppendanna til þess að ljúka þátttöku á Ólympíuleikunum.