"ÉG hafði aldrei heyrt á þessa íþrótt minnst áður og ég þekki ekkert reglurnar en ég fer samt á leiki því stemmning er góð," sagði einn áhorfenda á leik Ástrala og Frakka í handknattleik karla snemma vikunnar.

"ÉG hafði aldrei heyrt á þessa íþrótt minnst áður og ég þekki ekkert reglurnar en ég fer samt á leiki því stemmning er góð," sagði einn áhorfenda á leik Ástrala og Frakka í handknattleik karla snemma vikunnar. Frakkar unnu leikinn 28:16 en heimamenn skemmtu sér vel á áhofendapöllunum.

"Ég fer aðallega á þessa leiki til þess að taka þátt í Ólympíuleikunum. Miðarnir eru ódýrir og leikirnir eru býsna fjörugir," sagði annar áhorfandi á sama leik.

"Flestir áhorfendur okkar hafa ekki hugmynd um hvað gengur á inni á vellinum en þeir skemmta sér samt," segir Renton Taylor leikmaður karlaliðs Ástralíu.

"Ástralar elska íþróttir og þeim er alveg sama þótt við töpum öllum leikjunum bara ef við náum að skora nokkur mörk, þá eru allir ánægðir. Ég reikna með því að flestir áhorfendur handboltaleikjanna eigi ekki eftir að fylgjast með þessari íþrótt í framtíðinni," sagði Taylor enn fremur.

Satt er að fjölmargir áhofendur hafa séð handboltaleiki Ólympíuleikanna. Aðalástæðan mun vera sú að miðarnir kosta lítið, eða um 500 krónur inn á tvo leiki. Miðar á tennis, sem er sérlega vinsæl íþrótt í Ástralíu, kosta t.d. rúmlega fimm sinnum meira. Þetta er talsverður peningur í augum Ástrala því sem dæmi má nefna að ágæt steik og forréttur á veitingastað kostar t.d. um 2.000 krónur með einu rauðvíðsglasi eða gosi eftir smekk og lyst hvers og eins.