Jan Holpert, markvörður Þjóðverja, var að vonum vonsvikinn með að falla úr keppninni, en Spánverjar sigruðu Þjóðverja með einu marki og mæta Svíum í undanúrslitum.
Jan Holpert, markvörður Þjóðverja, var að vonum vonsvikinn með að falla úr keppninni, en Spánverjar sigruðu Þjóðverja með einu marki og mæta Svíum í undanúrslitum.
HEIMS- og Evrópumeistarar Svía stefna ótrauðir að sigri í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna, en það er eini titillinn sem hið sigursæla lið Svía getur ekki státað af. Svíar, Júgóslavar, Spánverjar og Rússar eru komnir áfram í undanúrslit.

Svíar lögðu Egypta í átta liða úrslitum, 27:24, eftir að staðan hafði verið 14:12 í leikhléi. Egyptar voru allt annað en ánægðir með dómgæsluna og er það engin nýlunda þegar Svíar eiga í hlut. Um miðjan síðari hálfleikinn var staðan 19:19 en þá voru tveir Egyptar reknir af velli með stuttu millibili og Svíar náðu forystu á ný.

Er staðan var 23:21 fyrir Svía voru tveir Egyptar reknir út af á sama tíma og sigur Svía ekki í hættu eftir það. Svíar voru þrívegis reknir af velli í tvær mínútur en Egyptar átta sinnum.

"Það er ekki hægt að sigra þegar dómararnir eru svona áberandi á bandi annars liðsins," sagði Mohamed Alfi, aðstoðarþjálfari Egypta, eftir leikinn. Bengt Johansson, þjálfari Svía, sagði vissara að ræða ekki um dómgæsluna, en dómararnir hefðu vissulega gert mistök en þó ekki eins mörg og leikmennirnir.

Svíar mæta Spánverjum í undanúrslitum en Spánverjar lögðu Þjóðverja 27:26. Spánverjar höfðu undirtökin lengst af fyrri hálfleiks, meðal annars 10:6, en Þjóðverjar voru 13:11 yfir í leikhléi og 19:16 er tíu mínútur voru eftir. Spánverjar komust í 21:19 en Þjóðverjar náðu eins marks forystu, 26:25, er rúmar tvær mínútur voru eftir en allt kom fyrir ekki.

"Við hlökkum allir til leiksins við Svía. Við höfum tapað alltof oft fyrir þeim undanfarin ár og ætlum að breyta því núna," sagði Talant Dujshebaev.

Júgóslavía hafði undirtökin gegn Frökkum og sigraði nokkuð örugglega og Rússar voru í fluggírnum þegar þeir unnu Slóvena 33:22.

Þau lið sem leika um 5.-8. sætið eru Slóvenía, Frakkland, Þýskaland og Egyptaland. Undanúrslitaleikirnir verða á föstudaginn.