Stjórnarandstæðingar hrópa vígorð gegn Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseta á fjöldafundi í Belgrad í fyrrakvöld. Rúmlega 40.000 manns komu þá saman í miðborginni eftir að stjórnarandstaðan hafði lýst yfir sigri í kosningunum um helgina.
Stjórnarandstæðingar hrópa vígorð gegn Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseta á fjöldafundi í Belgrad í fyrrakvöld. Rúmlega 40.000 manns komu þá saman í miðborginni eftir að stjórnarandstaðan hafði lýst yfir sigri í kosningunum um helgina.
NÚ hefur það komið á daginn, sem margir spáðu, að Slobodan Milosevic myndi ekki láta af forsetaembættinu í Júgúslavíu þegjandi og hljóðalaust, þrátt fyrir að allt bendi til að stjórnarandstaðan hafi unnið stórsigur í kosningunum á sunnudag.

NÚ hefur það komið á daginn, sem margir spáðu, að Slobodan Milosevic myndi ekki láta af forsetaembættinu í Júgúslavíu þegjandi og hljóðalaust, þrátt fyrir að allt bendi til að stjórnarandstaðan hafi unnið stórsigur í kosningunum á sunnudag. Stjórnarandstaðan og óháðir eftirlitsmenn fullyrða að Vojislav Kostunica, forsetaframbjóðandi kosningabandalags stjórnarandstöðuflokka, hafi náð öruggum meirihluta í fyrstu umferð, en yfirkjörstjórn tilkynnti þó í gær að hvorki hann né Milosevic hefðu náð 50% markinu og því yrði önnur umferð kosninganna haldin 8. október næstkomandi.

Eftir að sigur stjórnarandstöðunnar virtist í höfn hafa stjórnmálaskýrendur sagt að Milosevic ætti þrjá meginvalkosti í stöðunni, en enginn þeirra virðist sérstaklega ákjósanlegur fyrir hann.

Einn af þessum kostum er að boða til annarrar umferðar, eins og Milosevic hefur nú gert. Það myndi veita honum færi á að hleypa kappi í stuðningsmenn sína og beita stjórnarandstöðuna þvingunum, eða jafnvel að undirbúa ennþá umfangsmeiri kosningasvik en uppvíst varð um á sunnudag. Þetta gæti þó snúist í höndunum á forsetanum, enda fengi stjórnarandstaðan vitaskuld einnig tíma til að safna liði, og framkvæmd kosninganna yrði undir smásjá erlendra fjölmiðla.

Raunar er óvíst að stjórnarandstaðan muni taka þátt í seinni umferðinni, enda hefur Kostunica lýst yfir sigri og heitið því að hann verði varinn. Þá er miklum vafa undirorpið að vestræn ríki viðurkenni að réttmætt sé að boða til annarrar umferðar, enda líta þau svo á að Kostunica hafi þegar unnið sigur.

Neitar hugsanlega að láta af embætti fyrr en á næsta ári

En jafnvel þótt forsetinn verði nauðbeygður til að viðurkenna ósigur eftir seinni umferðina er viðbúið að hann neiti að segja af sér fyrr en eftir marga mánuði. Forsætisráðherrann Momir Bulatovic lýsti því yfir í síðustu viku að Milosevic hefði stjórnarskrárvarinn rétt til að sitja í embætti þar til kjörtímabil hans rennur út um mitt næsta ár. Þessi kenning þykir í meira lagi vafasöm, enda boðaði forsetinn sjálfur til kosninganna, en meðferð málsins fyrir dómstólum gæti tekið marga mánuði. Það gæfi Milosevic möguleika á að færa völd frá embætti forseta sambandsríkisins Júgóslavíu til stjórnarinnar í Serbíu, þar sem hann gæti síðan tekið við stjórnartaumunum. Þá yrði forsetaembættið sem félli í hlut Kostunica nær valdalaust.

Ólíklegt þykir þó að Milosevic kæmist upp með slík brögð.

Hollusta hersins fer dvínandi

Í þriðja lagi gæti Milosevic hunsað úrslit kosninganna alfarið, lýst yfir sigri og beitt hernum til að bæla stjórnarandstöðuna niður. En þrátt fyrir að hann hafi ekki skirrst við að beita valdi áður er búist við að hann hiki við það nú, af ýmsum ástæðum. Margt bendir til að hollusta hersins og öryggislögreglunnar við forsetann fari dvínandi og stjórnmálaskýrendur telja að hann geti ekki lengur treyst á stuðning þeirra. Samstaða innan stjórnarandstöðunnar er meiri en áður og alþjóðasamfélagið fylgist betur en nokkru sinni með framvindu mála í landinu.

Hvort sem Milosevic tekst að vinna tíma eður ei virðist því margt benda til að valdaskeið hans renni senn á enda.

London. The Daily Telegraph.