[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
YFIRVÖLD í Bretlandi ákærðu í gær rithöfundinn Jeffrey Archer fyrir að hafa beðið vin sinn um að bera ljúgvitni í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn dagblaðinu Daily Star fyrir 13 árum.

YFIRVÖLD í Bretlandi ákærðu í gær rithöfundinn Jeffrey Archer fyrir að hafa beðið vin sinn um að bera ljúgvitni í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn dagblaðinu Daily Star fyrir 13 árum. Archer, sem lengi var í miklum metum hjá Íhaldsflokknum, var ákærður fyrir meinsæri og fyrir að hafa hindrað framgang réttvísinnar, að því er talsmaður Scotland Yard greindi frá. Hneykslismál Archers náði hámarki í nóvember á síðasta ári er hann viðurkenndi að hafa beðið vin sinn um að bera ljúgvitni um samband sitt við vændiskonu. Kom játning Archers í veg fyrir framboð hans í kosningunum um embætti borgarstjóra Lundúna sem fram fóru í vor.

Réttur til einkalífs varinn

ÞEKKTIR einstaklingar eru víða taldir almannaeign sem ljósmyndarar og fjölmiðlar hafi rétt á að elta. Siðanefnd norska fjölmiðlasambandsins varði hins vegar nýlega rétt krónprinsins Hákonar til einkalífs eftir að Dagbladet, eitt stærsta dagblað Noregs, birti á forsíðu mynd af prinsinum kyssa kærustu sína, Mette-Marit Tjessem Hoiby, í afmælisveislu sinni.

"Áfrýjunarnefndin getur ekki fallist á að afmæliskoss frá kærustu teljist mikilvægur fyrir þjóðfélagið," sagði í dómi siðanefndar, sem taldi Dagbladet brjóta gegn siðareglum fjölmiðla með myndbirtingunni.

Sotheby's til sölu?

SVO kann að fara að Alfred Taubman, sem á meirihluta í Sotheyby's-uppboðsfyrirtækinu, selji hlut sinn sem metinn er á einar 309 milljónir dollara, eða tæpa 25 milljarða króna. Taubman sagði af sér embætti sem stjórnarformaður fyrirtækisins í febrúar sl. vegna rannsóknar á meintu verðlagssamráði Christie's og Sotheby's, sem ráða í sameiningu yfir um 95% uppboðsmarkaðarins.

Þýska velferðarkerfinu breytt

WALTER Riester, atvinnumálaráðherra Þýskalands, kynnti í gær áætlanir um að einkavæða hluta þýska velferðarkerfisins. Breytingarnar sem Riester hefur hug á að koma í framkvæmd yrðu tengdar lífeyrisgreiðslum, sem ríkisstjórnin hefur þegar viðurkennt að séu orðnar henni ofvaxnar. "Það yrðu margir sigurvegarar," sagði Riester og kvað aukin einkaframlög og minni ríkisframlög, sem gildi tækju árið 2011, henta þjóðfélaginu vel.