The Exorcist er með umdeildari myndum sem gerðar hafa verið og hefur síður en svo tapað hryllingi sínum.
The Exorcist er með umdeildari myndum sem gerðar hafa verið og hefur síður en svo tapað hryllingi sínum.
TVÆR ÆÐI ólíkar hrollvekjur stökkva beint í efstu sæti bandaríska kvikmyndalistans þessa vikuna; gelgjuhrellirinn Urban Legends: Final Cut og hvorki meira né minna en ein allra merkasta og vinsælasta hryllingsmynd kvikmyndasögunnar The Exorcist.

TVÆR ÆÐI ólíkar hrollvekjur stökkva beint í efstu sæti bandaríska kvikmyndalistans þessa vikuna; gelgjuhrellirinn Urban Legends: Final Cut og hvorki meira né minna en ein allra merkasta og vinsælasta hryllingsmynd kvikmyndasögunnar The Exorcist. Önnur atrenna Urban Legends hafði þó aðeins betur á endasprettinum og náði að lokka að örlítið fleiri gesti sem skilaði henni toppsætinu eftirsótta. Myndin skartar fríðu líði ungra og óþekktra leikara sem smám saman falla í valinn þar sem þau eru við nám í kvikmyndaskóla, að sönnum hryllingsmyndasið. Gagnrýnendur hafa verið ósparir á neikvæðu lýsingarorðin en sem oft áður hafa ungir bíógestir látið allar slíkar ráðleggingar sem vind um eyru þjóta.

Ástæðan fyrir endurútgáfu hinnar sígildu The Exorcist, fyrir utan þá staðreynd að slíka mynd ber ávallt að kynna fyrir nýjum kvikmyndaunnendum, er sú að hér er loksins á ferð útgáfan sem ætíð var fremur að skapi höfundarins William Peter Blatty, þ.e. þessi með góða endinum en ekki þeim vonda sem leikstjórinn William Friedkin vildi hafa. Oftast nær hafa endurúgáfur verið tilkomnar vegna þess að vilja og sýn leikstjórans hefur ekki verið fylgt í viðkomandi mynd alla leið í bíó en í þetta sinn er það sjálfur höfundur sögunnar sem fær uppreisn æru. Viðtökurnar við myndinni sýna glöggt að hún virðist eiga fullt erindi við nýjar kynslóðir hryllingsmyndaunnenda því aðsóknarspekingar hafa fundið út að hér sé á ferð arðbærasta endurútgáfa næst á eftir Stjörnustríðsþrenningunni sem var endurútgefin við metviðtökur árið 1996. Almost Famous, endurminningar Camerons Crowe frá þeim árum sem hann var umvafinn kynlífi, vímuefnum og rokk og róli sem blaðamaður á Rolling Stone tímaritinu, var frumsýnd í fleiri kvikmyndahúsum um helgina síðustu og brá sér fyrir vikið ofar á listann eins og spáð hafði verið.

Um næstu helgi verður kvennaslagsmálamyndin Girlfight frumsýnd, um leið og enn ein fótboltamyndin Remember The Titans með Denzel Washington.