Börn, hið eftirminnilega gifsverk eftir Magnús Pálsson í mörgum hlutum, frá 1971, er meðal þeirra verka hans sem enn má njóta í Listasafni Íslands.
Börn, hið eftirminnilega gifsverk eftir Magnús Pálsson í mörgum hlutum, frá 1971, er meðal þeirra verka hans sem enn má njóta í Listasafni Íslands.
Til 1. október. Opið þriðjudaga til sunnudaga frá kl. 11-17.

MEÐAL þess sem ásækir áhorfandann frammi fyrir verkum Magnúsar Pálssonar er litleysi þeirra. Segja má að gestir Listasafns Íslands séu rækilega áminntir um það að Magnús var maðurinn sem gerði misjafnlega hvíta tóna að gjaldgengu litavali í íslenska list. En í staðinn fyrir litlaust ættum við að tala um látlaust, en þannig lýsti listamaðurinn gipsinu um leið og sagði það vera dautt. Eftir að hann hafði innleitt liti pappírsins og gipsins sem aðaltóna í spjaldi sínu reyndist eftirkomendum mun auðveldara að hverfa frá hinu sterka litrófi sem einkenndi stærstan hluta íslenskrar listar vel fram á sjöunda áratuginn.

Manni dettur ósjálfrátt í hug tilraunin úr barnaskóla þegar kennarinn þeytti marglita skífu með ógnarhraða um lóðréttan ás uns litirnir runnu saman í einn hvítan. Það hlýtur að teljast býsna táknrænt að Magnús, þessi svarni andstæðingur formrænnar aðgreiningar, skuli einmitt sækjast eftir þeim lit sem er nokkurs konar summa allra annarra lita án þess að vera sjálfur litur í venjulegri merkingu þess orðs.

En ef til vill er litleysi allra mögulegra lita táknrænasti votturinn um djarfa framgöngu Magnúsar frá upphafi listferils síns. Eftir verkunum í eigu Listasafns Íslands að dæma var hann ákveðinn að feta ekki hina fagurfræðilegu leið að settu marki heldur finna sér aðra og óvenjulegri með því að sækja út fyrir hin hefðbundnu landamæri myndlistarinnar. Þótt teikningarnar frá 1966, Kál I og Kál II, séu fallegar sem slíkar og fylgi að mörgu leyti þeim optísku tilraunum sem þá voru efstar á baugi búa þær yfir miklu meiri og flóknari upplýsingum. Þær ganga mun lengra í tilraunum sínum til að ná út fyrir þröng tæknileg landamæri myndlistarinnar en venjulegar teikningar sem einskorðast alfarið við fagurfræðileg gildi.

Þannig sýna þau tiltölulega fáu verk sem Listasafnið á hve lítinn áhuga Magnús hafði á hefðbundinni formfræði. Ekkert virðist hafa verið fjær honum en fara troðnar slóðir í listsköpun sinni. Því má auðvitað ekki gleyma að Magnús starfaði sem leiktjaldamálari þegar þörfin fyrir að gerast óháður myndlistarmaður sótti hann heim. Hann hefur ábyggilega ekki farið varhluta af þeim skoðunum að myndlist og leiklist væru fullkomlega ósættanlegir pólar, enda taldist það óhjákvæmilegt að bestu manna yfirsýn. Það sem tekið var gott og gilt í leikhúsi þótti beinlínis óheiðarlegt í myndlist, og það sem hélt fyrir myndlistarmönnum vöku var talið alltof sértækt og illskiljanlegt til að ná athygli leikhúsgesta.

En líkt og allir menn sem glíma við hið ómögulega taldi Magnús sig eygja leið framhjá vandanum. Börn, gipsverk eftir Magnús frá 1971, er í senn leikrænt verk og myndrænt. Hann útvegaði sér smábarnaföt úr teygjanlegu garni og fyllti þau með gipsi. Við það belgdust fötin út og tóku á sig mynd leikandi barna þótt höfuðin vantaði og helmingur búksins væri stundum það eina sem eftir stóð. Með því að sveigja þessi sértæðu mót á alla vegu náði Magnús að túlka ærslin í smábörnum og miðla um leið óstöðugleika líkamsstellingar þeirra. Minnstu börnin eru oft áþekk tinandi hrúgaldi þar sem þau sitja flötum beinum, kappdúðuð, og reyna að halda jafnvægi. Á sinn hátt tókst Magnúsi að túlka samneyti smáfólksins með jafneftirminnilegum og sposkum hætti og meistara Bruegel fjögur hundruð árum fyrr.

Því má ekki gleyma að sex árum fyrr - árið 1965 - var Magnús farinn að nýta sér klæðnað og gips í Stykkin sín, sem hann flokkaði sem Besta stykkið, Annað besta og Þriðja besta stykkið. Á samtíma ljósmynd af nokkrum þessara hauslausu fatalíkneskja má sjá hve dæmalaust svipuð þau eru leikurum sem þiggja lof eftir vel heppnaða sýningu. Þetta og fjölmargt fleira má lesa út úr öllum verkunum á þessari alltof smáu og alltof skammlífu sýningu Listasafns Íslands á verkum Magnúsar Pálssonar.

Halldór Björn Runólfsson