ÁRSFUNDUR Fiskveiðinefndar Norðvestur-Atlantshafsins, NAFO, sem haldinn var í Boston í Bandaríkjunum í liðinni viku, samþykkti að ríkjandi eftirlitskerfi með rækjuveiðum á Flæmingjagrunni yrði óbreytt hvað varðar eftirlitsmann um borð í hverju skipi en frá og með 1. janúar 2001 verður auk þess tekið upp gervihnattaeftirlit. Kostnaður vegna eftirlitsmannanna er um 600.000 krónur á hvert skip á mánuði.

Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri fór fyrir fjögurra manna íslenskri sendinefnd á fundinum. Hann segir að eftirlitsmálið hafi verið mikið rætt. Það hafi reyndar áður verið samþykkt en nú verið gengið betur frá því í öllum smáatriðum.

Fjareftirlit og eftirlitsmenn

Frá og með 1. janúar á næsta ári verður tekið upp gervihnattafjareftirlit en jafnframt verður eftirlitsmaður um borð í hverju skipi. "Við höfum lengi haldið því fram að ekki sé þörf á því að hafa eftirlitsmann um borð í hverju einasta skipi, burtséð frá fjareftirlitinu og alls ekki eftir að það er komið á," segir Þórður og bætir við að aðeins Norðmenn og Danir hafi stutt Íslendinga, sem hefðu viljað minnka eða afnema ríkjandi kerfi.

"Við lögðum það til að um leið og fjareftirlitið tæki gildi væri eðlilegt að falla frá hinu. Norðmenn og Danir studdu okkur í því en aðrir sem tjáðu sig voru á móti. Niðurstaðan er sú að það verður áfram eftirlitsmaður í hverju skipi en við vorum þeir einu sem greiddu atkvæði beinlínis á móti því."

Kostnaðurinn um 600.000 kr. á mánuði

Að sögn Þórðar er kostnaður útgerðar við eftirlitsmann um 16.000 til 17.000 kr. á dag en auk þess þarf Fiskistofa að leggja út pening vegna flugmiða og hótelkostnaðar. Því sé kostnaður útgerðar og Fiskistofu samtals um 20.000 kr. á dag vegna hvers skips eða um 600.000 kr. á mánuði. Þórður segir að þar sem Ísland hafi greitt atkvæði á móti sé Ísland ekki bundið af ákvörðun fundarins og eigi möguleika á að mótmæla kerfinu.