ÞJÓÐVERJAR íhuga nú að styrkja skipasmíðaiðnað sinn með ríkisstyrkjum á sama tíma og önnur lönd hafa verið að skera niður styrki til skipasmíða í löndum EB og á evrópska efnahagssvæðinu. Áætlun Þjóðverja hljóðar upp á byggingarstyrki sem nema 22 milljörðum króna næstu þrjú árin jafn í beinum sem óbeinum greiðslum.

Styrkirnir munu verða veittir til þróunar á tækni og einnig til skipasmíðastöðva sem eru illa staddar.

Norðmenn hafa talsverðar áhyggjur af þessari nýju þróun mála enda verður róðurinn hjá norska skipasmíðaiðnaðinum þungur ef hann á að keppa við þýska skipasmíðaiðnaðinn án styrkja.

Styrkjaáætlun Þjóðverja kemur nokkuð þvert á markmið manna um að leggja niður ríkisstyrki tengdum sjávarútvegi í Evrópu en Norðmenn hafa nýverið fellt niður ríkisstyrki til skipasmíða, sem nema 4,5-9%, til landa í Evrópubandalaginu og landa á evrópska efnahagssvæðinu.

Stærsta fiskiskip í heimi, Atlantic Dawn, sem byggt var í Noregi var eitt af síðustu skipunum þar í landi til að hljóta ríkisstyrk en kostnaður við smíði skipsins var 4,5 milljarðar íslenskra króna. Þar af greiddi norska ríkið um hálfan milljarð af smíðaverði skipsins þannig að upphæðirnar sem um ræðir eru verulegar. Eins og reglurnar eru nú í Noregi eru það aðeins lönd utan við Evrópubandalagið og evrópska efnahagssvæðið sem fá styrki til nýbygginga í Noregi og því njóta fiskveiðiþjóðir eins og Ísland, Færeyjar, Grænland og Nýja-Sjáland góðs af fyrirkomulaginu.