ÁRLEG ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands hefst á Ísafirði í dag og stendur ráðstefnan í heild í tvo daga. Yfirskrift hennar að þessu sinni er "Tækifæri landsbyggðar í ferðaþjónustu" og er m.a.

ÁRLEG ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs Íslands hefst á Ísafirði í dag og stendur ráðstefnan í heild í tvo daga. Yfirskrift hennar að þessu sinni er "Tækifæri landsbyggðar í ferðaþjónustu" og er m.a. gert ráð fyrir að framtíð Reykjavíkurflugvallar verði rædd í því samhengi í pallborðsumræðum sem fram fara í dag.

Um tvö hundruð manns sækja ráðstefnuna en hún er haldin á Hótel Ísafirði. Tómas Ingi Olrich, formaður Ferðamálaráðs, mun setja ráðstefnuna en síðan mun Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarpa samkomugesti.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, Áslaug Alfreðsdóttir, hótelstjóri á Hótel Ísafirði, Reynhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík, Auður Anna Ingólfsdóttir, hótelstjóri á Hótel Héraði, Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Þorgeir Pálsson flugmálastjóri. Mun Þorgeir í erindi sínu ræða um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Á ráðstefnunni í dag verða árleg umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs einnig afhent en þau hafa nú verið afhent árlega frá 1995 í tengslum við ferðamálaráðstefnuna. Komu þau síðast í hlut Bláa lónsins.