ÞRÁTT fyrir að Áströlum hafi ekki tekist að velgja Bandaríkjamönnum eins mikið undir uggum og vonir stóðu til í sundkeppni Ólympíuleikanna eru heimamenn ánægðir með árangurinn í sundlauginni enda sá besti hjá þeim síðan 1972.

ÞRÁTT fyrir að Áströlum hafi ekki tekist að velgja Bandaríkjamönnum eins mikið undir uggum og vonir stóðu til í sundkeppni Ólympíuleikanna eru heimamenn ánægðir með árangurinn í sundlauginni enda sá besti hjá þeim síðan 1972.

Bandaríkjamenn eru sem fyrr bestir í sundinu því þeir fengu 14 gull, 8 silfur og 11 bronspeninga en Ástralir, sem koma næstir, fengu 5 gullverðlaun, 9 silfurverðlaun og fern bronsverðlaun.

Ástralskir fjölmiðlar gerðu miklar kröfur til sundmanna sinna og sögðu á sunnudaginn að þrátt fyrir að hafa ekki alveg náð að þjarma nægilega að Bandaríkjamönnum hefði sundfólkið staðið sig vel.

Sundfólkið sjálft er einnig ánægt með árangurinn. Táningurinn Ian Thorpe segir að enginn geri eins miklar kröfur til sín og hann sjálfur og að hann sé sáttur við flestöll sund sín á leikunum. Ástralar höfðu vonast til að hann stæði uppi með fimm gullpeninga en þess í stað fékk hann þrjá slíka og tvo silfurpeninga.