ALÞJÓÐA lyftingasambandið hefur ákveðið að setja alla lyftingamenn frá Búlgaríu í 12 mánaða keppnisbann eða á meðan rannsókn stendur yfir á þeirra málum.

ALÞJÓÐA lyftingasambandið hefur ákveðið að setja alla lyftingamenn frá Búlgaríu í 12 mánaða keppnisbann eða á meðan rannsókn stendur yfir á þeirra málum. Þetta er gert sökum þess að nokkrir búlgarskir lyftingamenn hafa fallið á lyfjaprófi á Ólympíuleikunum og verið reknir heim með skömm í hatti. Þykir Alþjóðasambandinu þetta vera slík hneisa fyrir íþróttina að rétt sé að grípa til svo harðra refisaðgerða sem raun ber vitni. Þar með er ljóst að þeir búlgarskir lyftingamenn sem eiga eftir að keppa á Sydney-leikunum fá ekki að taka þátt þótt þeir hafi ekki óhreint mjöl í pokahorni sínu. Eitt skal yfir alla ganga.

Um leið gerir Alþjóðalyftingasambandið þá kröfu til búlgarska lyftingasambandsins að það geri úttekt og útrými með öllu lyfjamisnotkun á meðal lyftingamanna í landinu sem eru innan þess. Skal ólympíunefnd og íþróttasamband landsins hafa hönd í bagga með því verkefni.