C.J. Hunter var á mánudaginn sviptur aðgangspassa sínum á ólympíuleikvanginum, en hann var skráður til leikanna sem aðstoðarþjálfari eiginkonu sinnar, Marion Jones hlaupakonu.

C.J. Hunter var á mánudaginn sviptur aðgangspassa sínum á ólympíuleikvanginum, en hann var skráður til leikanna sem aðstoðarþjálfari eiginkonu sinnar, Marion Jones hlaupakonu. Þetta var gert eftir að Alþjóða frjálsíþróttasambandið, staðfesti að kúluvarparinn íturvaxni hafi fallið á lyfjaprófi sem tekið var af honum eftir Bislett-leikana í Ósló í lok júlí og að auki hafi Hunter fallið á þremur öðrum prófum fyrir keppnina í Noregi og lítið fór fyrir upplýsingum úr þeim prófum frá Bandaríkjunum.

Þar með er ljóst að vilji Hunter fylgja konu sinni eftir að keppnisvellinum eins og hann ætlaði verður að hann finna aðgöngumiða, en þeir liggja ekki á lausu og sáralítið mun vera til á svörtum markaði. Jafnvel er talið að Hunter fari heim til Bandaríkjanna á næstu dögum ellegar þá loki sig inni á hótelherbergi þeirra hjóna og fylgist með keppninni í sjónvarpi.

Margir meðlimir Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, eru æfareiðir í garð bandaríska frjálsíþróttasambandsins. Johann Koss, fyrrverandi skautahlaupari og margfaldur ólympíumeistari, sem á sæti í nefnd IOC sem er ætlað að sporna gegn notkun ólöglegra lyfja sagði í gær að það væri með öllu ólíðandi að Bandaríkjamenn teldu að þeir gætu látið aðrar reglur gilda um sína íþróttamenn, en aðrar þjóðir hafa. Sagt er að um 15 lyfjamálum hafi verið stungið undir teppið í Bandaríkjunum undanfarið ár.

Enginn þeirra 15 íþróttamanna er á meðal þátttakenda á Ólympíuleikunum eftir því næst verður komið.

Ívar Benediktsson skrifar frá Sydney