Andreea Raducan fagnaði sigri í fjölþraut.
Andreea Raducan fagnaði sigri í fjölþraut.
RÚMENSKA fimleikakonan Andreea Raducan var svipt gullverðlaunum sínum í fjölþrautarkeppninni eftir að fundist hafði ólöglegt lyf í lyfjaprófi sem tekið var af henni strax að lokinni fjölþrautarkeppninni 21. september síðastliðinn.

RÚMENSKA fimleikakonan Andreea Raducan var svipt gullverðlaunum sínum í fjölþrautarkeppninni eftir að fundist hafði ólöglegt lyf í lyfjaprófi sem tekið var af henni strax að lokinni fjölþrautarkeppninni 21. september síðastliðinn. Raducan fær að halda gullverðlaununum í liðakeppni sem hún vann til nokkrum dögum fyrir fjölþrautarkeppnina og einnig silfurverðlaunum í stökki sem hún vann til þremur dögum eftir fjölþrautina. Efnið sem fannst í þvagsýni Raducan, Pseudoephidrine, er örvandi og má rekja til kvefmeðals sem fimleikakonan notaði í upphafi Ólympíuleikana og læknir rúmenska liðsins, Joachim Onana, lét henni í té pillur gegn kvefpestinni rétt fyrir fjölþrautarkeppnina. Onana hefur nú verið meinuð þátttaka á ÓL næstu fjögur árin og þykir sæta furðu að læknirinn skuli hafa gefið Raducan-lyfið og ljóst að hún hafi ekki haft neinn hag af inntöku lyfsins. Raducan vann silfur í stökki 24. september og var tekin í lyfjapróf að keppni lokinni og ekkert athugavert fannst í því prófi.

Rúmenar íhuga nú að áfrýja úrskurði Alþjóða Ólympíunefndarinnar, IOC, þar sem Raducan var ekki ljóst hvernig lyf læknir liðsins hafi gefið henni og talsmaður IOC sagði að ákvörðunin hefði verið ekki létt þar sem augljóst væri að þarna hefði verið um mistök að ræða og íþróttamaðurinn hefði ekki ráðið þar neinu um.